Handboltastrákarnir snemma á fótum

Varnarjaxlarnir Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson á Heathrow-flugvelli í London.
Varnarjaxlarnir Ingimundur Ingimundarson og Sverre Jakobsson á Heathrow-flugvelli í London. mbl.is/Golli

Handboltaáhugafólk á Íslandi þarf að taka daginn snemma í fyrramálið ef það ætlar að fylgjast með gangi mála í leik Íslands og Argentínu á Ólympíuleikunum í London. Leikurinn hefst klukkan 8:30 að íslenskum tíma eða 9:30 að staðartíma. 

Handboltalandsliðið hefur þá leik á Ólympíuleikunum að þessu sinni og vonandi verður leikurinn upphafið að öðru ólympíuævintýri hjá liðinu.

Þess má geta að annar leikur liðsins verður einnig klukkan 8:30. Þá mætir Ísland liði Túnis á þriðjudagsmorguninn. Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari er byrjaður að venja sína menn við og var til að mynda með æfingu í morgunsárið í gær. 

Lið Argentínu og Túnis eru nú ekki ýkja þekkt á Íslandi en íslenska liðið hefur leikið vináttulandsleiki á móti þeim báðum á undanförnum vikum. Íslenska liðið rennir því ekki blint í sjóinn.

Á fimmtudagskvöldið munu íslensku landsliðsmennirnir taka á gömlum og þekktum andstæðingum eða Svíum. Síðast mættust þessar þjóðir í stórmóti í undankeppni Ólympíuleikanna fyrir fjórum árum og sigraði Ísland sælla minninga og tryggði sér keppnisrétt í Peking. Þá verður spilað klukkan 20:15 að íslenskum tíma. 

Í riðlinum leika einnig Frakkar og Bretar en efstu fjórar þjóðirnar komast í átta liða úrslit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert