Sex marka sigur Íslands

Íslenska landsliðið vann Argentínu, 31:25, í fyrsta leik handknattleikskeppni  karla á Ólympíuleikunum í London. Ísland var einu marki yfir í hálfleik, 15:14, og hafði yfirhöndina allan síðari hálfleikinn.

Argentínumenn veittu Íslendingum harða keppni lengi vel en á síðustu tíu mínútum leiksins kom getumunurinn á liðunum vel í ljós og þá náði Ísland að slíta sig aðeins frá andstæðingnum sem lék af skynsemi langar sóknir sem kostar mikla þolinmæði að verjast.

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk. Ólafur Stefánsson skoraði sex mörk, þar af fjögur úr vítakasti. Róbert Gunnarsson skoraði fjögur mörk og vann nokkur vítaköst. Arnór Atlason, Aron Pálmarsson og Ingimundur Ingimundarson skoruðu þrjú mörk hver, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2 og Alexander Petersson eitt.

Björgvin Páll Gústavsson varði 8 skot á um 40 mínútum sem hann var í markinu. Hreiðar Levý Guðmundsson stóð í markinu síðustu 20 mínúturnar eða svo og varði afar vel, alls níu skot, þar af þrjú vítaköst og munaði um minna.

Næsti leikur Íslands verður á þriðjudaginn við Túnis. Flautað verður til leiks klukkan 8.30.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is. Eins eru hér meðfylgjandi nokkrar myndir sem Kjartan Þorbjörnsson, Golli, ljósmyndari Morgunblaðsins tók í leiknum í morgun.

Viðtöl við leikmenn birtast á mbl.is innan stundar.

Ísland 31:25 Argentína opna loka
60. mín. Arnór Atlason (Ísland ) skoraði mark
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert