2:0 sigur hjá Rögnu í fyrsta leik

Ragna Ingólfsdóttir fagnar í leikslok í kvöld.
Ragna Ingólfsdóttir fagnar í leikslok í kvöld. mbl.is/Golli

Ragna Ingólfsdóttir sigraði Akvile Stapusaityte frá Litháen all örugglega, 2:0, í fyrstu viðureign sinni á Ólympíuleikunum í London í kvöld.

Ragna vann mjög sannfærandi, 21:10. Önnur lotan var jafnari en Ragna var með undirtökin og knúði fram sigur, 21:16. Þetta er fyrsti sigurleikur Íslendings í badminton á Ólympíuleikum.

Stapusaityte tapaði á sunnudaginn fyrir Jie Yao sem keppir fyrir Holland 16:21 og 7:21. Ragna og Yao mætast í úrslitaleik riðilsins annað kvöld. 

Ragna er í 81. sæti heimslistans en Stapusaityte í 94. sæti. Yao er hinsvegar í 20. sætinu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Ragna sigraði 2:0 og gerði það með sannfærandi hætti.

2. lota: 21:16! Ragna vann!

2. lota: 18:14 Ekki er allt búið enn.

2. lota: 17:12 Mér sýnist Ragna vera að landa sigrinum.

2. lota: 14:9 Frábært væri ef Rögnu tækist að komast í gegnum fyrsta leik án þess að tapa lotu.

2. lota: 11:7 Ragna er fjórum stigum yfir þegar tekið er hlé í annari lotu. Hún skoraði fimm stig í röð og breytti þá stöðunni úr 5:5 í 10:5.

2. lota: 9:5 Ragna er búin að skora fjögur stig í röð. Allt á réttri leið.

2. lota: 6:5 Ragna er yfir en öllu meira spenna að byggjast upp í þessari lotu.

2. lota: 3:3 Sú litháíska virðist eitthvað sprækari nú en í fyrstu lotu. Ragna hefur samt verið á undan að skora.

Staðan er 1:0 fyrir Rögnu. Hún vann fyrstu lotuna 21:10. Mjög sannfærandi hjá Rögnu og frábær byrjun á Ólympíuleikunum. Hún virtist hafa þetta í hendi sér alla lotuna. Þegar sú litháíska sendi stutta bolta rétt yfir netið þá lendi Ragna helst í einhverjum vandræðum. Ef sú litháíska sendi hins vegar langa bolta yfir þá átti Ragna hana einfaldlega með ullinu og öllu. Hún hafði ekkert mjög mikið fyrir smössunum og þurfti ekki að hoppa til að smassa. Hún hefur ábyggilega ekki eytt mikilli orku enn sem komið er. 

1. lotu: 15:5 Allt stefnir í að Ragna komist í 1:0 í þessum fyrsta leik. 

1. lota: 11:4 Ragna er með gott forskot þegar tekin er pása í fyrstu lotu. Hún og Jónas Huang fara yfir málin. Hann getur varla haft mikið út á þetta að setja. 

1. lota: 9:1 Fimm stig í röð frá Rögnu. Hún er með allt á hreinu í upphafi leiks. 

1. lota: 4:1 Sú litháíska var að fá sitt fyrsta stig. Mjög góð byrjun hjá Rögnu.

1. lota: 2:0 Ragna fékk fyrstu tvö stigin í leiknum.

Kl 19:16 Ragna var nú kynnt til leiks og stormar inn á völlinn við lófaklapp. Hin glæsilega Wembley-höll er þéttsetin þrátt fyrir draugasögur af slæmri aðsókn á Ólympíuleikana. Keppt er á þremur völlum í einu og hér eru á að giska tæplega fimm þúsund manns að horfa á og stemningin góð. 

Kl 19:15 Völlurinn sem Ragna á að spila á var að losna og því hlýtur hennar leikur að hefjast innan skamms.

Kl 18:55 Til stóð að leikurinn myndi hefjast um það bil klukkan 19:40 en það hefur ekki staðist hjá mótshöldurum. Badminton er jú þannig íþrótt að þar koma af og til oddalotur en vinna þarf tvær lotur til að vinna leikinn. Sá sem fyrr fær 21 stig vinnur lotuna.  

Ragna Ingólfsdóttir í ólympíuþorpinu.
Ragna Ingólfsdóttir í ólympíuþorpinu. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert