Drjúg eru morgunverkin

Hreiðar Levý Guðmundsson, Sverre Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson voru allir …
Hreiðar Levý Guðmundsson, Sverre Jakobsson og Ingimundur Ingimundarson voru allir vel vaknaðir fyrir leikinn gegn Argentínu. mbl.is/Golli

Morgunverkin í London reyndust íslensku landsliðsmönnunum í handknattleik drjúg í gær þegar liðið vann sinn fyrsta leik á Ólympíuleikunum. Leikurinn hófst klukkan 8:30 að íslenskum tíma og liðlega einum og hálfum tíma síðar höfðu Argentínumenn verið lagðir að velli 31:25.

Þó margur Íslendingurinn sé á fótum á þessum tíma sólarhringsins þá er um mjög óvenjulegan leiktíma að ræða þegar kemur að boltagreinum. Þar sem þjálfarar leggja yfirleitt þá línu að leikmenn séu vaknaðir löngu áður en leikur hefst, þá má gera ráð fyrir því að landsliðsmennirnir hafi tekið daginn ansi snemma.

Morgunhani dagsins að þessu sinni var tvímælalaust Guðjón Valur Sigurðsson sem var markahæstur með níu mörk. Guðjón hefur í gegnum tíðina verið þvílík markamaskína að handboltaáhugamenn eru nánast hættir að taka eftir frammistöðu sem þessari hjá honum. Um leið og Guðjón skoraði fyrsta mark Íslands á þessum Ólympíuleikum þá var augljóst að hann var vel vaknaður. Kappinn kreppti hnefann og urraði eitthvað sem nærstaddir hefðu hugsanlega getað greint ef ekki hefði verið fyrir fagnaðarlætin í höllinni.

Sjá nánar um viðureignina og leikana í London í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert