Tæpur en frábær sigur á Svíum

Strákarnir okkar unnu nauman sigur á Svíþjóð í A-riðli á Ólympíuleikunum í kvöld, 33:32, en lokamínúturnar voru gríðarlega spennandi. Þetta er fyrsti sigur Íslands gegn Svíþjóð á stórmóti síðan 1964.

Svíþjóð byrjaði betur í leiknum og var yfir eftir átta mínútur, 6:3. Þá sögðu strákarnir okkar hingað og ekki lengra, spiluðu frábæra vörn, fengu fullt af hraðaupphlaupum og leiddu í hálfleik, 17:13.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik þar sem Svíarnir höfðu fá svör við íslensku vörninni sem var að skila hraðaupphlaupsmörkum. Þegar fimm mínútur voru eftir voru Íslendingar yfir, 32:27.

Síðasta hluta leiksins voru íslensku strákarnir mikið að láta reka sig út af og þannig komust Svíar aftur inn í leikinn. Þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 32:31, á lokamínútunni en Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði síðasta mark Íslands og tryggði sigurinn. Svíar skoruðu síðasta markið en það dugði ekki til. Ísland vann, 33:32.

Aron Pálmarsson var í ham í leiknum en hann skoraði níu mörk úr þrettán skotum og var gjörsamlega óstöðvandi. Einn besti leikur Arons fyrir íslenska landsliðið. Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson voru einnig öflugir og þeir Sverre og Ingimundur flottir í vörninni.

Ísland er með sigrinum búið að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum en næsti leikur er gegn Frökkum á laugardaginn. 

Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins í London, fjallar nánar um leikinn í íþróttablaði Moggans á morgun.

Mörk Íslands:

Aron Pálmarsson 9
Guðjón Valur Sigurðsson 7
Alexander Petersson 5
Ólafur Stefánsson 5
Arnór Atlason 3
Ingimundur Ingimundarson 2
Róbert Gunnarsson 1
Ásgeir Örn Hallgrímsson 1

Mörk Svíþjóðar:

Jonas Källman 10
Kim Ekdahl du Rietz 8
Kim Andersson 6
Niclas Ekberg 3
Dalibor Doder 2
Andreas Nilsson 2
Tobias Karlsson 1

Ísland 33:32 Svíþjóð opna loka
60. mín. Ásgeir Örn Hallgrímsson (Ísland ) varði skot Hleyptu Ásgeiri í gegn til að reyna fiska boltann en hann skorar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert