Óðinn kastaði 17,62 metra

Óðinn Björn Þorsteinsson er úr leik í kúluvarpskeppninni á Ólympíuleikunum í London en hann var talsvert frá sínu besta í undankeppninni í morgun og kastaði lengst 17,62 metra. Hann endaði þar með í 36. sæti af þeim 37 keppendum sem áttu gild köst en þrír af 40 gerðu öll sín köst ógild.

Óðinn gerði ógilt í fyrsta kastinu en kúluvarpararnir fengu þrjár tilraunir.

Óðinn kastaði 17,04 metra í öðru kasti og var þá síðastur af þeim 37 kösturum sem gert höfðu gild köst.

Óðinn kastaði 17,62 metra í þriðja kasti og var þar með úr leik en var í 36. sæti af 37 sem gert höfðu gild köst.

Kasta þurfti 20,65 metra til að vera öruggur áfram. Fimm af 40 keppendum náðu því og lokaniðurstaðan var því að tólfti maður komst í úrslit með því að kasta 20,25 metra.

Bandaríkjamaðurinn Reese Hoffa kastaði lengst allra, 21,36 metra. Næstir komu David Storl frá Þýskalandi með 21,15 metra og Tomasz Majewski frá Póllandi með 21,03 metra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert