„Þetta er virkilega góð tilfinning. Við vorum búnir að koma okkur í þessa stöðu að tryggja okkur úrslitaleik um sigur í riðlinum eða þannig séð. Við erum ótrúlega ánægðir með að það tókst og andlega er ótrúlega gott að vera búnir að sigra þetta lið,“ sagði Arnór Atlason sem hefur tekið að sér hlutverk leikstjórnanda á leikunum og skilað því með miklum sóma þótt hann sé öllu vanari því að spila sem skytta með landsliðinu.
Arnór benti hins vegar á að í átta liða úrslitunum verður allt undir, þ.e.a.s. ef Ísland vinnur spilar það um verðlaun en ef það tapar fer það heim.
„Þessi sigur skilar okkur engu ef við töpum þessum leik í átta liða úrslitum. Nú er bara að koma sér á jörðina og halda einbeitingu. Við þurfum að vera auðmjúkir og ekki halda að við séum orðnir heimsmeistarar. Sá leikur sker úr um hvort við gerum eitthvað í þessu móti jafnvel þó svo við höfum unnið Frakka og þennan riðil. Við getum ekki fagnað einu eða neinu en nú er æðislegt að geta bara beðið eftir því hverja við fáum úr fjórða sætinu í hinum riðlinum,“ sagði Arnór í samtali við mbl.is í London í kvöld.
Arnór fékk högg á hnéð í síðasta leik á mót Svíum en vildi ekki velta sér upp úr því á sigurstundu en sagði þó þetta: „Ég fékk smá hnykk á hnéð í síðasta leik og var smá smeykur vegna þess að ég var alveg þrælslæmur og gat ekki klárað leikinn. Það er búið að vinna vel í því síðustu daga enda erum við með gott lækna- og sjúkraþjálfarateymi. Svo eru þetta nú Ólympíuleikar þannig að maður fórnar ýmsu,“ útskýrði Arnór.