Guðjón Valur Sigurðsson náði þeim áfanga í sigurleiknum við Frakka í gærkvöldi að skora sitt 100. mark fyrir íslenska landsliðið í handknattleik á Ólympíuleikum. Hann er sá fyrsti sem nær þeim áfanga.
Guðjón Valur hafði skorað 98 mörk fyrir íslenska landsliðið þegar kom að leiknum við Frakka og því var annað mark hans í leiknum hundraðasta ÓL-mark hans. Tímamótamarkið skoraði Guðjón Valur eftir 20,40 mínútur í leiknum með skoti yfir öxlina á Thierry Omeyer, markverði Frakka, eftir að hafa komist einn gegn honum í hraðaupphlaupi en nokkru áður hafði Alexander Petersson unnið boltann af frönsku sóknarmönnunum, einu sinni sem ofar. Markið kom Íslandi í fjögurra marka forskot, 12:8.
Guðjón Valur bætti síðan við þremur mörkum til viðbótar í leiknum og hefur þar með skorað 103 mörk fyrir landsliðið í 18 ÓL-leikjum. Ólafur Stefánsson er næstur með 90 mörk í 18 leikjum og Snorri Steinn Guðjónsson er þriðji markahæstur frá upphafi með 61 mark, einnig í 18 leikjum eins þeir Guðjón Valur og Ólafur. Allir eru þeir að taka þátt í sínum þriðju Ólympíuleikum í röð.
Markahæstu leikmenn Íslands á ÓL, fjöldi leikja er innan sviga:
Guðjón Valur Sigurðsson 103 (18)
Ólafur Stefánsson 90 (18)
Snorri Steinn Guðjónsson 61 (18)
Kristján Arason 52 (12)
Alexander Petersson 48 (12)
Sigurður Gunnarsson 46 (12)
Róbert Gunnarsson 42 (18)
Valdimar Grímsson 35 (7)
Arnór Atlason 35 (12)
Atli Hilmarsson 33 (12)
Þorgils Óttar Matthiesen 32(12)
Alfreð Gíslason 28 (12)
Geir Sveinsson 26 (13)
Aron Pálmarsson 25 (4)
Logi Geirsson 25 (8)
Sigfús Sigurðsson 22 (14)
Jón Hjaltalín Magnússon 21 (5)
Guðmundur Þórður Guðmundsson 21 (11)