Bolt: Skrefi nær því að verða goðsögn

Usain Bolt með Bandaríkjamennina Ryan Bailey og Justin Gatlin sinn …
Usain Bolt með Bandaríkjamennina Ryan Bailey og Justin Gatlin sinn til hvorrar hliðar. AFP

Usain Bolt, jamaíski spretthlauparinn sem vann 100 metra hlaupið á Ólympíuleikunum í London í gærkvöld með yfirburðum, segir að með sigrinum sé hann einu skrefi nær því að verða goðsögn.

„Þetta gull þýðir að ég er einu skrefi nær því að verða goðsögn og ég vinn áfram að því markmiði. Þetta var bara eitt skref. Nú eru 200 metrarnir framundan og það er næsti áfangi,“ sagði Bolt, sem vann báðar greinarnar í Peking fyrir fjórum árum. Í gærkvöld vann hann 100 metrana á 9,63 sekúndum sem er næstbesti tími sögunnar en heimsmet Bolts er 9,59 sekúndur.

Hann var spurður hvort möguleiki væri á því að komast niður fyrir 19 sekúndurnar í 200 metra hlaupinu en þar er heimsmet hans 19,19 sekúndur.

„Tja, ég hef verið með það í huga síðustu árin, og í ár, á þessari braut, hef ég enn meiri trú á sjálfum mér. Við skulum sjá til. Ég vil ekki fullyrða að ég geti það, og ná því svo ekki. En það er mér ofarlega í huga,“ sagði Bolt.

Margir efuðust um að hann myndi verja titilinn í 100 metra hlaupinu, sérstaklega eftir að hafa tapað fyrir landa sínum Yohan Blake í báðum greinunum fyrr í sumar. Blake fékk hins vegar silfrið í gær á 9,75 sekúndum.

„Margir sögðu að ég myndi ekki vinna og það var talað mikið. Það er því frábær tilfinning að koma hingað og sýna heiminum að ég er ennþá númer eitt og bestur. Startið var ekki fullkomið svo ég varð að bæta það upp, og eftir 50 metrana vissi ég að þetta myndi ganga vel. Ég hljóp bara. Ég ætla ekki að fullyrða að þetta hafi verið fullkomið hlaup því þjálfarinn minn segir að svo sé ekki,“ sagði Bolt, og stefnir á að halda sínu striki næstu árin.

„Ég verð vonandi í Ríó. Þá verð ég orðinn þrítugur en vonandi í toppformi. Blake verður orðinn 26 ára, svo það verður mjög áhugavert,“ sagði Usain Bolt, en næstu Ólympíuleikar verða í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert