Ísland vann 17 marka sigur á Bretum

Strákarnir okkar unnu stórsigur á gestgjöfum Bretlands, 41:24, í lokaleik sínum í A-riðli handboltakeppninnar á Ólympíuleikunum. Ísland vann alla fimm leiki sína í riðlinum og mætir Ungverjum í átta liða úrslitum.

Fyrri hálfleikurinn var hreinasta hörmung og áttu strákarnir greinilega erfitt með að gíra sig upp í leikinn eftir sigurinn glæsilega á Frökkum. Vörnin var léleg, markvarslan engin til að byrja með og í sókninni voru íslensku strákarnir að fara illa með dauðafæri.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, tók leikhlé eftir 21 mínútu og lét sína menn heyra það. „Við þurfum að fara byrja spila þennan leik. Það er klippt á okkur, það er leyst inná okkur, það er sirkusmark á okkur og við erum ekki til staðar í HELVÍTIS VÖRNINNI!“ öskraði Guðmundur á strákana.

Staðan lagaðist þó lítið og Ísland leiddi ekki með nema þremur mörkum í hálfleik, 18:15, en Steven Larsson fór á kostum fyrir Breta í fyrri hálfleik og skoraði níu mörk í öllum regnbogans litum.

Seinni hálfleikurinn var mun skárri en þar skoruðu strákarnir 23 mörk gegn 8. Mestu munaði um frammistöðu Hreiðars Levý Guðmundssonar sem var langbesti leikmaður íslenska liðsins. Hann tók við af Björgvini Páli sem varði aðeins eitt skot fyrstu tíu mínúturnar.

Hreiðar varði 19 skot og var með 51 prósent hlutfallsmarkvörslu. Stórleikur hans og skárri varnarleikur hjá íslenska liðinu fór að skila auðveldum hraðaupphlaupsmörkum og þá fóru okkar menn að keyra yfir Bretana.

Á endanum vann Ísland 17 marka sigur, 41:24, en Bretarnir skoruðu flest mörk sín á Ólympíuleikunum gegn okkar mönnum í dag. Mest höfðu Bretar skorað 21 mark gegn Argentínu.

Ísland var fyrir leikinn búið að tryggja sér efsta sætið í riðlinum en það lýkur nú leik í riðlakeppninni með fullt hús stiga. Næst er það Ungverjaland í átta liða úrslitum á miðvikudaginn.

Kristján Jónsson, blaðamaður Morgunblaðsins í London, fjallar nánar um leikinn í íþróttablaði Moggans á morgun en seinna í dag koma viðbrögð frá strákunum okkar á mbl.is.

Mörk Íslands:

Guðjón Valur Sigurðsson 8
Vignir Svavarsson 5
Alexander Petersson 5
Aron Pálmarsson 5
Ásgeir Örn Hallgrímsson 4
Snorri Steinn Guðjónsson 3
Ólafur Stefánsson 3
Ingimundur Ingimundarson 2
Kári Kristján Kristjánsson 2
Arnór Atlason 2
Róbert Gunnarsson 2

Varin skot:

Björgvin Páll Gústavsson 1 (14%)
Hreiðar Levý Guðmundsson 19 (51%) 

Lið Íslands: Björgvin Páll Gústavsson, Hreiðar Levý Guðmundsson - Vignir Svavarsson, Kári Kristján Kristjánsson, Aron Pálmarsson, Ingimundur Ingimundarson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Arnór Atlason, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Ólafur Stefánsson, Alexander Petersson, Sverre Jakobsson, Róbert Gunnarsson.

Lið Bretlands: Jesper Parker, Robert White - Ciaran Williams, Sebastian Prieto, Christopher Mohr, Steven Larsson, Martin Hare, Daniel McMillan, Mark Hawkins, Christopher McDermott, Robin Garnham, Sebastien Edgar, John Pearce, Gawain Vincent.

Ísland 41:24 Bretland opna loka
60. mín. Snorri Steinn Guðjónsson (Ísland ) tapar boltanum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert