Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni setti glæsilegt Íslandsmet í spjótkasti á Ólympíuleikunum í London rétt í þessu og tryggði sér sæti í úrslitum greinarinnar strax í fyrsta kasti.
Ásdís kastaði 62,77 metra og bætti þriggja ára gamalt met sitt um hvorki meira né minna en 140 sentimetra. Það var 61,37 metrar, sett á Laugardalsvellinum í maí 2009.
Hún þurfti aðeins að kasta í þetta eina skipti. Lágmarkið er 62 metrar og Ásdís því örugg í úrslitin, hvað sem aðrir myndu gera á eftir henni. Úrslitakeppnin í spjótkastinu fer fram á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 20.00 að íslenskum tíma.
Mbl.is fylgdist með í beinni lýsingu, sem varð styttri en búist var við:
1. kast: Ásdís byrjaði frábærlega og grýtti spjótinu vel yfir 60 metrana. Niðurstaðan er 62,77 metrar og nýtt glæsilegt Íslandsmet hefur litið dagsins ljós á hinum glæsilega ólympíuleikvangi í London. Ásdís þarf ekki að kasta meira í dag þar sem lágmarkið inn í úrslitin var 62 metrar!
Hér á leikvanginum er svolítil gola og er hún örugglega næg til að hafa einhver áhrif á hvernig spjótið flýgur. Mér sýnist á fánunum að kastararnir séu með vindinn á móti sér. Vonandi gengur okkar konu vel að reikna út vindinn.
Ásdís mun keppa í frábæru andrúmslofti á hinum glæsilega ólympíuleikvangi þeirra Breta. Hér sýnist mér hvert sæti vera skipað þótt ég hafi nú ekki talið alla hausana. Ásdís mun því kasta fyrir framan liðlega 80 þúsund manns. Stemningin er mjög skemmtileg eins og hún hefur verið á leikvanginum. Hér var til dæmis að ljúka undanúrslitum í 5.000 metra hlaupi kvenna við mikil læti.
Hægt er að tryggja sér öruggt sæti í úrslitunum með því að kasta yfir 62 metra en úrslitin fara fram á ólympíuleikvanginum á fimmtudagskvöldið. Verði færri en tólf sem ná þessu lágmarki munu þeir kastarar sem ná tólf lengstu köstunum keppa í úrslitunum.
Íslandsmet Ásdísar er 61,37 metrar en hún hefur kastað lengst 60,54 metra í ár.
Ásdís keppir nú á sínum öðrum Ólympíuleikum en hún var einnig á meðal keppenda í Peking fyrir fjórum árum. Olnbogameiðsli settu þá stórt strik í reikninginn hjá henni.