Sú spurning leitar óneitanlega á mann eftir að hafa horft á 100 metra hlaup karla á Ólympíuleikvanginum í London á sunnudagskvöldið. Ekki er svo sem langt liðið á öldina en ef maður skoðar keppendurna í hlaupinu og árangur þeirra hlýtur þessa íþróttaviðburðar að verða minnst um langa hríð.
Á Ólympíuleikunum í Seúl í Suður-Kóreu árið 1988 var talað um 100 metra hlaup 20. aldarinnar og það með réttu. Þar rak hver kempan aðra þótt flestra augu væru á þeim Ben Johnson og Carl Lewis. Þar kepptu einnig þeir Linford Christie, Calvin Smith, Dennis Mitchell, Robson Da Silva, Desai Williams og Ray Stewart.
Á sunnudagskvöldið voru fjórir fljótustu spretthlauparar sögunnar samankomnir í sama hlaupinu en þeir eru í þessari röð: Usain Bolt, Tyson Gay, Asafa Powell og Yohan Blake. Bolt er heimsmethafi og nú ólympíumeistari á tvennum leikum í röð. Tyson Gay er næstfljótasti maður sögunnar og sá eini fyrir utan Bolt sem farið hefur undir 9,70 sekúndur. Asafa Powell setti heimsmet árið 2008 þegar hann hljóp á 9,72 sekúndum og þótti býsna gott. Yohan Blake er ríkjandi heimsmeistari og yngsti heimsmeistari sögunnar en hann var þá 21 árs gamall.
Í hlaupinu keppti einnig Justin Gatlin sem var ólympíu- og heimsmeistari árin 2004 og 2005. Síðan þá hefur hann vaðið eld og brennistein en honum tókst að komast á pall í þessu vægast sagt erfiða hlaupi og varð í þriðja sæti. Það hlýtur að vera einkennileg tilfinning fyrir Yohan Blake að hafa hlaupið á 9,75 sekúndum í úrslitum 100 metra hlaups á Ólympíuleikum en ekki átt möguleika á sigri. Það eru merkileg örlög.
Sjá viðhorfsgrein þessa í heild og umfjöllun um Ólympíuleikana í London í íþróttablaði Morgublaðsins í dag.