Ólafur Stefánsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um hvort hann spilaði fleiri landsleiki ef eftir því yrði leitað þegar mbl.is spurði hann að loknum leiknum við Ungverjaland í London í dag.
Ólafur hefur alla vega ekkert gefið út um það hvert framhaldið verður en hann er auk þess samningslaus eftir gjaldþrot AG í Kaupmannahöfn.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sagðist ekki vita hvort Ólafur ætlaði sér að hætta með landsliðinu að leikunum loknum. „Tíminn með Óla hefur verið stórkostlegur. Hann er að mínu mati einn af bestu handboltamönnum sögunnar. Hann er frábær persónuleiki, leiðtogi og fyrirmynd. Það hefur verið einstakt að vinna með honum eins og öllu liðinu og öllum leikmönnunum. Ef það verður niðurstaðan að hann ætli ekki að halda áfram verður eftirsjá að honum bæði sem leikmanni og persónuleika. Ég veit hins vegar ekkert um hvort hann ætlar ekki að halda áfram eða ekki. Hann verður að svara því,“ sagði Guðmundur við mbl.is