Ásdís hafnaði í 11. sæti í spjótkastinu

Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni keppti í úrslitum í spjótkasti á Ólympíuleikunum í London í kvöld. Ásdís hafnaði í 11. sæti með 59,08 metra en hún setti Íslandsmet í undankeppninni þegar hún kastaði 62,77 metra. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Kl 20:42 Þriðja kast Ásdísar. Þetta kast misheppnaðist og var stutt. Ásdís rölti því fram fyrir kastlínuna og gerði það ógilt. Niðurstaðan hjá henni er því 59,08 metrar í úrslitunum og hún hafnar í 11. sæti. Glæsilegur árangur að ná 11. sæti á Ólympíuleikum en Ásdís hefur samt sem áður örugglega viljað ná að kasta yfir 60 metra í úrslitunum. 

Kl 20:35 Heimsmeistarinn Maria Abakumova virðist vera að falla úr keppni. Hún er í 9. sæti eftir þrjú köst og hefur ekki náð að kasta yfir 60 metra. Ólympíumeistarinn Barbora Spotakova er hins vegar í banastuði og hefur kastað á milli 66 og 67 metra í öllum þremur köstunum. Nú nálgast úrslitastund hjá Ásdísi. Þriðja kastið eftir nokkrar mínútur. 

Kl 20:29 Annað kast Ásdísar. Þetta var frekar slakt á mælikvarða Ásdísar. 57,35 metrar og fyrra kast hennar var mun lengra. Hún er eins og er í 9. sæti. Ásdís þarf nú að ná kasti yfir 60 metrana í þriðju tilraun og þá gæti hún orðið á meðal þeirra átta efstu sem fá þrjú köst í viðbót.

Kl 20:23 Heimsmeistarinn Abakumova er í bullandi vandræðum. Fyrsta kastið ógilt og annað kastið 59,37 metrar. Hún þarf að kasta langt í næsta kasti til að komast í gegnum niðurskurðinn að þremur umferðum loknum. Svona eru Ólympíuleikarnir. Allt getur gerst í aðstæðum sem þessum. Evrópumeistarinn komst til að mynda ekki í úrslit. 

Kl 20:22 Ásdís er í sjöunda sæti að lokinni fyrstu umferð.

Kl 20:17 Fyrsta kast Ásdíar: Hún byrjaði á því að kasta 59,08 metra. Ágætt fyrsta kast en betur má ef duga skal í þeirri samkeppni sem hún fær í kvöld. Hún var svolítið óheppin því þegar að henni kom þá voru David Rudisha afhent gullverðlaun fyrir 800 metra hlaupi með tilheyrandi fánahyllingu og þjóðsöng Kenía. Ásdís þurfti að bíða á brautinni tilbúin á meðan sem hefur örugglega verið erfitt. 

Kl 20:08 Heimsmeistarinn Abakunova byrjaði illa. Hún hitti ekki völlinn og kastið er því ógilt. Hún er þriðja í kaströðinni.

Kl 20:07 Ólympíumeistarinn Spotakova frá Tékklandi reið á vaðið og byrjaði með látum og kastaði 66,90 metra. 

Kl 20:03 Jæja þá er verið að setja spjótkastið af stað. Ásdís er níunda í röðinni. 

Kl 19:57 Usain Bolt er fljótur að hlaupa. Ég gætti þess að blikka ekki augunum til að missa ekki af honum. Hann sigraði á 19,32 sekúndum en heimsmetið er 19,19 sekúndur. Hann virtist hægja á sér áður en hann kom í mark og spurning hvort hann hefði getað gert atlögu að metinu. Slíkar stúderingar er sjálfsagt hægt að fara í yfir sjónvarpsmyndum af þessu. 

Kl 19:55 Sprettharðasti maður sögunnar var kynntur til leiks rétt í þessu: Usain Bolt. Svona fagnarlæti heyrir maður bara þegar Mugsion er kynntur á rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður.  

Kl 19:54 Nei nei nei nú ætlar allt um koll að keyra hér á leikvanginum og manni er drekkt í ljósmyndaflassi. Hlaupaspírurnar í 200 metra hlaupinu eru að gera sig klárar.

Kl 19:35 Ásdís er ásamt öðrum kösturum að hita upp á vellinum. Þær taka nú upphitunarköst hver af annari. Ásdísi þekkir maður langar leiðir þar sem hún keppir í áberandi grænum skóm. 

Kl 19:30 Gert hefur verið hlé á keppni í þrístökki. Hugað er að einum keppenda sem liggur í sandgryfjunni. Svo virðist sem hnéð hafi gefið sig þegar hann fór í lokastökkið. Þetta var ljótt að sjá. Íslandsmet Vilhjálms Einarssonar frá árinu 1960, 16,70 metrar mynda skila honum í 11. sæti eins og staðan er núna í þrístökkinu.

Kl 19:20 Stemningin er mjög góð á ólympíuleikvanginum eins og hún hefur reyndar verið alla keppnisdagana en leikvangurinn tekur 80 þúsund manns. Mun hlýrra hefur verið í dag en undanfarna daga en það var til að mynda fremur svalt þegar Ásdís kastaði í undankeppninni. Afreksmaðurinn mikli frá Kenía, David Rudisha, setti áðan heimsmet í 800 metra hlaupi og það kveikti hressilega í mannskapnum. 

Ásdís verður níunda í kaströðinni af tólf en hún fer með áttunda besta árangurinn úr undankeppninni inn í úrslitin. Þar var hún sú eina sem bætti sinn besta árangur. Keppendur frá þrjú köst og þá verður keppendafjöldi skorin niður. Þær átta efstu fá þrjú köst til viðbótar til að berjast um sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert