Einstakt afrek Usain Bolt

Jamaíkumaðurinn Usain Bolt vann einstakt afrek í kvöld þegar hann kom fyrstur í mark í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í London, á 19,32 sekúndum, því hann er þar með fyrstur til að vinna bæði 100 og 200 metra hlaup á tvennum Ólympíuleikum.

Bolt hljóp gríðarlega vel en slakaði aðeins á í lokin og gaf hugsanlega frá sér möguleikann á að bæta ólympíumetið sitt sem er 19,30 sekúndur. Heimsmet hans er hins vegar 19,19 sekúndur.

Jamaíka vann þrefalt í 200 metra hlaupinu. Yohan Blake varð í 2. sæti á 19,44 sekúndum og Warren Weir náði sínum besta árangri þegar hann kom í mark á 19,84 sekúndum, 6/100 úr sekúndu á undan Wallace Spearmon.

Heimsmeistarinn Christian Taylor vann sigur í þrístökki karla með 17,81 metra stökki. Landi hans frá Bandaríkjunum, Will Claye, kom næstur á 17,62 metrum og Ítalinn Fabrizio Donato varð þriðji með 17,48 metra stökki. 

Usain Bolt fagnar sigri í 200 metra hlaupinu í kvöld.
Usain Bolt fagnar sigri í 200 metra hlaupinu í kvöld. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert