Frakkar vörðu ólympíumeistaratitilinn

Frakkland er ólympíumeistari í handbolta aðra leikana í röð eftir sigur á Svíþjóð, 22:21, í spennandi úrslitaleik í London. Frakkar eru því áfram ríkjandi heims- og ólympíumeistarar.

Svíar höfðu yfir, 6:5, þegar fimmtán mínútur voru búnar en þá tók Frakkland forustuna, 7:6, og lét hana ekki af hendi. Tveimur mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 10:8.

Frakkar leiddu allan seinni hálfleikinn en Svíar hleyptu þeim aldrei lengra en þremur mörkum frá sér. Svíþjóð minnkaði muninn í eitt mark, 16:15, þegar korter var eftir og svo aftur 21:20, þegar rétt rúmlega ein og hálf mínúta var eftir. Nikola Karabatic lét þá reka sig út af og voru síðustu 90 sekúndurnar æsispennandi.

Það var hornamaðurinn ótrúlegi, Luc Abalo, sem tryggði Frökkum sigurinn með marki þegar 39 sekúndur voru eftir. Svíar brunuðu upp, skoruðu og minnkuðu muninn aftur í eitt mark, 22:21, en nær komust þeir ekki og Frakkar unnu gullið.

Luc Abalo, Daniel Narcisse og Xavier Barachet voru markahæstir hjá Frakklandi með fjögur mörk en Nicklas Ekberg skoraði sex mörk fyrir Svía. Thierry Omayer varði 11 skot í marki Frakka en Johan Sjöstrand varði 13 skot fyrir Svía.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert