Kári Steinn: Ég er mjög sáttur

Kári Steinn Karlsson að loknu maraþoninu í dag.
Kári Steinn Karlsson að loknu maraþoninu í dag. mbl.is/Golli

Kári Steinn Karlsson úr Breiðabliki var ánægður að loknu maraþonhlaupinu í London þar sem hann hafnaði í 42. sæti. Þetta eru fyrstu Ólympíuleikarnir sem Kári keppir á og aðeins þriðja maraþonhlaup hans á ferlinum. 

„Ég er bara mjög sáttur. Ég fór mjög skynsamlega af stað en hélt þó að ég hefði farið mun hraðar af stað en raunin var. Ég fékk smásjokk að sjá hversu mikið hafði dreifst úr hópnum eftir 5 og 10 km. Loftið er þungt og það var fullheitt. Það hafði áhrif og ég hélt að brautin yrði hraðari en þetta. Í henni voru margar beygjur, brekkur og óslétt undirlendi. Tíminn er ekkert til að hrópa hátt húrra yfir en miðað við aðstæður var ég ekkert langt frá bætingu. Ég er sérstaklega ánægður með sætið. Ég gaf það út einhvern tímann að ég stefndi á að vera á meðal 30 efstu en þá vissi ég ekki að það yrðu svona margir í hlaupinu og fleiri góðir hlauparar en ég reiknaði með. Ég var í 97. sæti fyrirfram en ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að vera í kringum 90. sætið. Allt undir áttatíu efstu var plús fyrir mig og ég er bara rosalega sáttur við 42. sætið. Þetta eru mínir fyrstu Ólympíuleikar og ég er reynslulítill enda innan við ár síðan ég hljóp mitt fyrsta maraþon. Ég á nóg eftir og því er bara að stefna hærra á næstu mótum og næstu leikum,“ sagði Kári Steinn í samtali við mbl.is að hlaupinu loknu. 

Kári ætlar að slaka á næstu vikurnar en mun þó halda sér við að einhverju leyti með þrekæfingum. Hann ætlar að leyfa sér fjölbreyttara mataræði næstu dagana og gerir ráð fyrir að fá sér steik í kvöldmatinn. „Nú er það bara hvíld í þrjár til fjórar vikur. Ég ætla að hlaupa sem minnst en ætla að æfa eitthvað. Mun reyna að hvíla mig einnig andlega. Ég er kominn með upp í kok af þessum kolvetnum og ætla að fá mér steik í kvöld,“ sagði Kári léttur og hann er heldur betur búinn að vinna fyrir henni.

Aðstæður voru erfiðar í London í dag. Hitinn var mikill þar sem sólin lét sjá sig en flesta dagana frá því að leikarnir voru settir hefur verið mun svalara. Kári var því óheppinn að því leytinu til enda fer maraþonið fram í kringum hádegið þegar heitast er. Hann hljóp hins vegar mjög taktískt. Var aftarlega til að byrja með en tók fram úr liðlega fjörutíu keppinautum áður en yfir lauk. Auk þess voru nokkrir sem réðu ekki við aðstæður og hættu keppni. 

Kári hljóp á tveimur tímum, 18,47 mínútum og komst stöðugt framar eftir því sem leið á hlaupið. Hann var í 94. sæti eftir fyrstu 5 kílómetrana og fór fram úr hópi keppenda á hverjum fimm kílómetrum eftir það, þar til hann var í lokin kominn vel upp fyrir miðjan hóp keppenda. Hlaupnir voru 42 kílómetrar og 195 metrar og Íslandsmet Kára er tveir tímar og 17,32 mínútur. Það var fyrir hlaupið 97. besti árangurinn hjá þessum 105 keppendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert