Nadzeya Ostapchuk, sem fagnaði sigri í kúluvarpi kvenna á Ólympíuleikunum í London, hefur verið svipt gullverðlaunum sínum eftir að hafa orðið uppvís að steranotkun.
Ostapchuk náði í einu gullverðlaun Hvíta-Rússlands í frjálsum íþróttum og hafði loksins betur gegn Valerie Adams frá Nýja-Sjálandi. Nú er hins vegar komið í ljós að til þess beitti hún ólöglegum aðferðum. Í blóði Ostapchuk fannst efnið metenólón bæði fyrir og eftir keppni.
Adams mun nú fá gullverðlaunin og ólympíumeistaratitilinn. Evgeniia Kolodko frá Rússlandi fær silfrið og Lijiao Gong frá Kína fær bronsið.
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið á eftir að ákveða hve langt keppnisbann Ostapchuk fær.