Nýtt „huldulyf“ notað af keppendum í Sotsjí?

Vetrarólympíuleikarnir í Sotsjí eru hafnir en setningarathöfnin er á morgun.
Vetrarólympíuleikarnir í Sotsjí eru hafnir en setningarathöfnin er á morgun. AFP

Alþjóða lyfjaeftirlitið, Wada, hefur áhyggjur vegna nýs lyfs sem íþróttafólk getur notað til að stækka vöðva sína með tvöfalt meiri hraða en eðlilegt getur talist. Lyfið finnst ekki í þeim lyfjaprófum sem notast er við í dag.

Óttast er að einhverjir keppendanna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí hafi neytt lyfsins, sem kallast Full Size MGF og hefur aðeins verið prófað á dýrum en ekki mannfólki. Þó að framkvæmd verði 3.700 lyfjapróf bæði á meðan á leikunum stendur og eftir leikana, myndi lyfið ekki finnast í prófum.

Lyfið hefur verið selt af rússneskum vísindamanni sem starfar fyrir rússneska vísindasetrið í Moskvu. Upp komst um Rússann þegar hann seldi þýskum blaðamanni lyfið en Þjóðverjinn þóttist vera að nálgast lyfið fyrir íþróttamann. Honum var tjáð að það kostaði um 100.000 evrur, jafnvirði 16 milljóna króna, að gera íþróttamann kláran fyrir Vetrarólympíuleikana.

„Það er hryllilegt til þess að hugsa að lyfið hafi aðeins verið prófað á dýrum. Það er fáránlegt en kemur ekki á óvart. Það er talsvert áfall að þetta skyldi gerast hjá rússneskum vísindamanni,“ sagði David Howman framkvæmdastjóri Wada.

Sir Craig Reedie, forseti Wada, hefur áður varað íþróttamenn við því að samkvæmt nýjum reglum megi skoða sýni allt að 10 árum eftir að þau hafa verið tekin og nota til þess nýjustu tækni. Þannig verður hugsanlega unnt að koma upp um þá sem notast við Full Size MGF.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert