Einar og Brynjar neðarlega - Ligety í sérflokki

Einar Kristinn Kristgeirsson á ferðinni í stórsviginu í dag.
Einar Kristinn Kristgeirsson á ferðinni í stórsviginu í dag. AFP

Einar Kristinn Kristgeirsson og Brynjar Jökull Guðmundsson skiluðu sér báðir niður brekkuna í fyrri ferð í stórsvigi á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag en náðu sér ekki vel á strik.

Einar Kristinn er í 63. sæti eftir fyrri ferðina og Brynjar í 65. sæti. Einar rakst utan í hlið á leið sinni niður og missti aðeins taktinn við það. Brynjar Jökull var sömuleiðis nærri því að detta í miðri brekkunni en slapp með skrekkinn. Báðir leggja áherslu á svigið en stórsvigið er þeirra fyrri grein í Sotsjí.

Bandaríkjamaðurinn Ted Ligety er með vænt forskot fyrir seinni ferðina en aðeins Tékkinn Ondrej Bank er innan við sekúndu á eftir honum. Ligety kom í mark á 1:21,08 en Bank er 93/100 úr sekúndu á eftir honum. Davide Simoncelli fór á 1:22,35 mínútu. Af öðrum má nefna að Marcel Hirscher er á 1:22,47 og Felix Neureuther á 1:22,51.

Einar Kristinn fór fyrri ferðina á 1:32,90 og er 11,82 sekúndum á eftir Ligety. Brynjar er 12,50 sekúndum á eftir Bandaríkjamanninum.

Af 109 keppendum sem skráðir voru til leiks skiluðu 79 sér niður í fyrri ferðinni. Seinni umferðin hefst kl. 10:30 en þá ræsa 30 fremstu keppendur í öfugri röð, þ.e. sá í 30. sæti ræsir fyrstur. Eftir það ræsa keppendur í þeirri röð sem þeir komu niður og því ræsir Einar 63. og Brynjar 65.

Brynjar Jökull Guðmundsson kominn í mark eftir fyrri ferðina í …
Brynjar Jökull Guðmundsson kominn í mark eftir fyrri ferðina í stórsviginu í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert