Þetta er ekki toppurinn

Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur átt stórkostlegt ár og hún vill meira.
Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur átt stórkostlegt ár og hún vill meira. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég get alveg hætt núna og sagt að ég hafi þá hætt á toppnum, en ég held að þetta sé ekkert toppurinn. Ég held að ég eigi meira inni og ég er hungruð í meira,“ sagði Hrafnhildur Lúthersdóttir eftir að hafa lokið keppni á sínum öðrum Ólympíuleikum í nótt.

Hrafnhildur hafnaði í 11. sæti í 200 metra bringusundi, eftir að hafa náð besta árangri íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum með því að hafna í 6. sæti í 100 metra bringusundi. Hún kvaðst hafa vonast eftir því að ná betri tíma í undanúrslitum 200 metra sundsins í nótt:

„Það er auðvitað ekki hægt að vera ósátt eftir að hafa synt í undanúrslitum á Ólympíuleikum, en ég er ósátt við að komast ekki í úrslit því það var markmiðið. En jafnvel með mínum besta tíma hingað til hefði ég ekki komist í úrslitin. Þetta var rosalega hratt og ég hefði þurft að bæta Íslandsmetið,“ sagði Hrafnhildur.

„Það er líka leiðinlegt að það sé alltaf ein hérna [innsk: Julia Efimova] að taka sæti sem ætti ekki að vera hérna, en það er ekkert hægt að gera við því. Ég gaf mig alla í þetta, þótt þetta sé kannski ekki besti tíminn, og ég fór þreytt upp úr lauginni, sem þýðir að ég reyndi mitt besta. Ellefta sæti er samt frábært,“ sagði Hrafnhildur, sem setti Íslandsmet sín í báðum greinum og náði betri tímum á EM í London í maí, en segir erfitt að segja til um hvers vegna tímarnir hafi ekki verið jafngóðir nú, þó að árangurinn sé stórkostlegur:

„Ég reyndi eins vel og ég gat en það gekk ekki alveg nógu vel upp. Ég er í raun ekki með neinar afsakanir fyrir þessu. Ég æfði vel, hvíldi mig vel, borðaði vel og gerði allt sem ég gat, en þetta gekk bara ekki upp í þetta skiptið.“

Með í Tókýó 2020?

Eins og fyrr segir er Hrafnhildur hungruð og vill halda áfram að vinna afrek í sundlauginni. Hún er 25 ára gömul en enginn keppandi í undanúrslitunum í 200 metra bringusundinu í nótt hafði náð 28 ára aldri. Hrafnhildur er hins vegar ekki á því að hún verði orðin of gömul þegar næstu Ólympíuleikar fara fram, í Tókýó 2020:

„Heimsmethafinn sem var að synda hérna í 200 metra bringusundinu er ´89-módel. Michael Phelps er 31 árs. Ég verð 29 ára þegar leikarnir í Tókýó fara fram og held að ég verði þá alveg inni í þessum „ramma“. Ég sagði það í gríni, þegar verið var að velja borg fyrir leikana 2020, að ef Tókýó yrði fyrir valinu þá myndi ég fara. Kannski verð ég bara að standa við það. Það verða frábærir Ólympíuleikar, en við sjáum til,“ sagði Hrafnhildur.

Þarf að finna vinnu sem hentar

Hrafnhildur lauk háskólanámi í almannatengslum í Flórída í vetur og stendur því á ákveðnum krossgötum nú. Hún vonast til að geta áfram verið afreksíþróttamaður en slíkt er ekki gefið á Íslandi:

„Þetta gæti orðið svolítið erfitt. Ég er að missa ólympíustyrk sem ég hef verið með síðustu tvö ár, en hann hjálpaði mér mikið. Ég þarf örugglega að finna mér einhverja vinnu þar sem mér verður leyft að æfa vel og fara út til að keppa á mótum. Ég vil að minnsta kosti taka eitt ár í viðbót, fara á næsta HM og reyna að komast enn þá lengra. Það væri geggjað,“ sagði Hrafnhildur og brosti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert