Franska sundkonan Aurelie Muller var dæmd úr leik í 10 kílómetra sundi á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu. Muller var svipt silfurverðlaunum sínum í sundinu sökum brots síns á lokaspretti sundsins.
Muller og ítalska sundkonan Rachele Bruni börðust um annað sætið í sundinu og voru hnífjafnar þegar kom að lokametrum sundsins. Muller togaði í Bruni og komst þannig fram fyrir hana við endamarkið.
Hollenska sundkonan Sharon Van Rouwendaal kom fyrst í mark á tímanum 1:56,32 og nældi sér í gullverðlaun. Brasilíska sundkonan Poliana Okimoto kom síðan þriðja í mark á tímanum 1:56,51 og hlaut bronsverðlaun.