Var of fljót fyrir atrennuna

Ásdís Hjálmsdóttir hefur ekki sagt sitt síðasta á stórmótum frjálsíþróttanna.
Ásdís Hjálmsdóttir hefur ekki sagt sitt síðasta á stórmótum frjálsíþróttanna. Ljósmynd/Páll Jóhannesson

„Það hvort að ég stend hérna brosandi eða grenjandi breytir ekki neinu um það sem gerðist hérna fyrir 20 mínútum síðan,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir, sem reyndi að bera sig vel þrátt fyrir vonbrigði næturinnar þegar hún keppti í undankeppni spjótkasts á Ólympíuleikunum í Ríó.

Ekkert þriggja kasta Ásdísar var nálægt því að vera eins gott og það sem hún hefur sýnt meðal annars á EM í sumar og fleiri mótum. Hún kastaði lengst 54,92 metra en hefur lengst kastað 61,37 metra í ár og á Íslandsmet upp á 62,77 metra.

„Auðvitað er svekkjandi að hafa ekki „hitt á það“ núna. Ég er í mínu besta formi, og hef aldrei verið eins hröð og núna, og það sem gerðist var einfaldlega það að ég var miklu hraðari í atrennunni en ég hef verið. Þess vegna var ég allt of nálægt endalínunni þegar ég kastaði. Ég byrjaði þremur fetum aftar í næstu tilraun, það var ekki nóg, og ég færði mig enn tveimur fetum aftar, en það var ekki heldur nóg. Það er hægt að segja að þetta sé einhvers konar „lúxusvandamál“. Þetta gerðist bara af því að ég er í betra formi en ég hef nokkru sinni verið í og hefði þurft meira pláss til að hlaupa á,“ sagði Ásdís, en átti hún ekki að þekkja betur sína atrennu?

Ætla að gera betur á næsta ári

„Þetta er atrennan sem ég er búin að vera að keppa og æfa með í allt sumar. Núna var ég fullhvíld, sem maður er ekki nema einu sinni á ári, og er greinilega bara hraðari en ég hafði gert ráð fyrir,“ sagði Ásdís.

„Það er hægt að svekkja sig á þessu og allt það, en það breytir engu. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta bara mót eins og hvert annað. Þó svo að þau komi bara á fjögurra ára fresti, þá gerist ekkert við það að maður svekki sig eitthvað meira, nema að manni líður verr. Það eina sem ég get gert núna er að ákveða hvernig ég tek þessu og vinn úr þessu. Þetta verður ekki mitt síðasta stórmót og ég ætla að gera enn þá betur á næsta ári,“ bætti hún við. Ljóst er að Ásdís getur á góðum degi átt kast sem hefði skilað henni í úrslit, en svo var alls ekki í nótt:

„Ég þurfti rúmlega 61,5 metra kast til að komast áfram í úrslit. Ég þurfti svakalega gott kast og vissi það vel. Ég kem hérna inn með 25. besta árangurinn í ár. Á blaði reiknar enginn með mér. En það er eitt að ná einhvern tímann einu góðu kasti, og svo að gera það hérna. Ég er stöðugri en margar sem eru hérna, og veit alveg í hvaða formi ég er í núna, þannig að ég bjóst við meiru. Ég veit að ég get mikið meira, en þetta eru bara þrjú köst og maður þarf að hafa heppni með sér. Ég var bara alls ekki með heppnina með mér í dag,“ sagði Ásdís.

Sé enga ástæðu til að hætta núna

Þetta voru þriðju Ólympíuleikar Ásdísar sem er þrítug, en næstu leikar fara fram í Tókýó 2020. Verður Ásdís með á þeim leikum?

„Ég ætla ekki að lofa því að ég verði enn þá að keppa eftir fjögur ár, en það er aldrei að vita. Hérna eru keppendur sem eru fjórum árum eldri en ég. Ég er í mínu besta formi frá upphafi, er algjörlega heil og hef enn þá ógeðslega gaman af þessu, svo ég sé enga ástæðu til að fara þá að hætta. Þó að þetta mót hafi ekki gengið, þessi þrjú köst, þá varð ég samt í 8. sæti á EM fyrir einum og hálfum mánuði síðan og hef kastað 61,5 metra á þessu ári. Það verður ekki frá mér tekið þó að þessi dagur hafi ekki gengið upp,“ sagði Ásdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert