Þrenn verðlaun til Íslendinga í Ríó

Eftir að Dagur Sigurðsson stýrði Þjóðverjum til bronsverðlauna í Ríó í dag er ljóst að þrír Íslendingar unnu til verðlauna á þessum Ólympíuleikum. 

Þórir Hergeirsson stýrði norsku konunum einnig til bronsverðlauna og Danir munu fá gull eða silfurverðlaun undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar. Allir eru þeir þjálfarar og allt er þetta í handboltakeppni leikanna eins og íþróttaáhugamenn þekkja. 

Þá var Eyleifur Jóhannesson einn þeirra sem komu að boðssundsveit Dana sem vann til bronsverðlauna í 4x100 fjórsundi. Mie Nielsen, sem Eyleifur þjálfar, var í sveitinni. Nielsen keppti á Reykjavíkurleikunum síðasta vetur. 

Saga Íslendinga á Ólympíuleikum geymir ekki ýkja mörg verðlaun og telst þessi frábæri árangur þeirra til því verulegra tíðinda, jafnvel þótt þeir keppi ekki undir merkjum Íslands. 

Helst mætti sennilega líkja árangrinum við uppskeru Íslendinga á leikunum í Peking árið 2008. Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann þá til silfurverðlauna, einmitt undir stjórn Guðmundar. Þá var Þórir kominn inn í þjálfarateymið hjá Noregi sem fékk þá gullverðlaun. Auk þess sigraði Gerd Kanter þá í kringlukasti og þjálfari hans var Vésteinn Hafsteinsson. 

Þórir endurtók leikinn í London 2012 og sigraði sem þjálfari Noregs og Kanter fékk bronsverðlaun undir handleiðslu Vésteins. 

Hér er reyndar rétt að taka fram að þjálfarar á Ólympíuleikum þurfa að láta heiðurinn og hlýjar minningar nægja því þjálfurum er ekki úthlutað verðlaunapeningum á Ólympíuleikum heldur eingöngu íþróttamönnunum sjálfum. Hvort sem um hópíþrótt eða einstaklingsíþrótt er að ræða. Þótt sú regla sé höfð á Ólympíuleikum þá er engu að síður ljóst að þáttur þjálfara í árangri íþróttafólks er stór. 

Að öðru leyti hafa ein verðlaun komið í hlut Íslendinga í einu á Ólympíuleikum eins og í Melbourne 1956, Los Angeles 1984 og Sydney 2000 þegar Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir unnu silfur, brons og brons. 

Við þetta má bæta að Vestur-Íslendingar voru í liði Kanada sem varð Ólympíumeistari í íshokkí á Vetrarólympíuleikunum í Antwerpen árið 1920. 

Dagur fékk bronsverðlaun

Þórir stýrði Noregi til bronsverðlauna

Guðmundur í gullleikinn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka