Gamla ljósmyndin: Margfaldur ólympíufari

Morgunblaðið/Brynjar Gauti

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Selfyssingurinn Vésteinn Hafsteinsson er enn á ný mættur á Ólympíuleika. Nú eins og á undanförnum leikum sem þjálfari framúrskarandi kastara. Vésteinn þjálfar til að mynda Svíann Daniel Ståhl sem árið 2019 varð heimsmeistari í kringlukasti. 

Vésteinn hefur notið mikillar velgengni sem þjálfari. Á meðfylgjandi mynd er hann kampakátur á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008. Með honum er Gerd Kanter frá Eistlandi sem þá varð ólympíumeistari í kringlukasti undir handleiðslu Vésteins. Kanter er með eistneska fánann en Íslendingurinn klikkaði ekki á því að vera með þann íslenska í höndunum. 

Myndina tók Brynjar Gauti sem myndaði á Ólympíuleikunum í Peking fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Birtist myndin fyrst á forsíðu Morgunblaðsins miðvikudaginn 20. ágúst 2008. „Það hefur verið draumur að þjálfa kringlukastara sem myndi vinna á Ólympíuleikunum,“ hefur Sigurður Elvar Þórólfsson, sem fjallaði um leikana fyrir Morgunblaðið og mbl.is, m.a. eftir Vésteini í blaðinu. 

Sjálfur keppti Vésteinn fjórum sinnum á Ólympíuleikum sem kringlukastari. Í Los Angeles 1984, Seoul 1988, Barcelona 1992 og Atlanta 1996 en í Barcelona hafnaði hann í 11. sæti og kastaði þá 60,06 metra. Vésteinn er einn fjögurra Íslendinga sem hafa keppt fjórum sinnum á Ólympíuleikum en hinir eru Guðmundur Gíslason, Bjarni Friðriksson, Kristinn Björnsson og Jakob Jóhann Sveinsson. Vésteinn keppti fimm sinnum á HM og þrívegis á EM. 

Vésteinn var um tíma landsliðsþjálfari Íslands í frjálsum og var það til að mynda á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert