Aðfaranótt þriðjudags var hlaupið langbesta 400 metra grindahlaup sögunnar í karlaflokki. Fóru þá fram úrslit í greininni á Ólympíuleikunum í Tókýó og vann hinn 25 ára gamli Norðmaður Karsten Warholm til gullverðlauna. Það kom reyndar ekki á óvart enda hafði hann bætt heimsmet Kevins Youngs frá leikunum í Barcelona 1992 rétt rúmum mánuði áður.
Það sem kom hins vegar á óvart var að Warholm bætti sitt eigið met, sem var 46,70 sekúndur, um rúmlega þrjá fjórðu úr sekúndu, hljóp á 45,96. Af bætingunni að dæma mætti ætla að hann hefði unnið með yfirburðum en svo var alls ekki. Bandaríkjamaðurinn Rai Benjamin sótti hart að Warholm á lokakafla hlaupsins og hljóp á 46,17 sekúndum, stórbæting á meti Warholms frá því í byrjun júlí. Ekki nóg með það því Brasilíumaðurinn Alison dos Santos hljóp á 46,72 sekúndum, undir gamla meti Youngs. Í einu hlaupi höfðu því þrír menn bætt met sem hafði þar til fyrir mánuði staðið í næstum 29 ár.
Nánast það sama átti sér stað í sömu grein kvennamegin nóttina eftir. Dalilah Muhammad frá Bandaríkjunum hafði bætt 16 ára gamalt heimsmet Yuliyu Pechonkinu árið 2019 og setti svo annað met sama ár. Stóð metið í 52,16 sekúndum þar til landa Muhammad, Sydney McLaughlin, hljóp á 51,90 sekúndum í lok júní á þessu ári.
Í hlaupinu aðfaranótt miðvikudags tryggði McLaughlin sér gullið með nýju heimsmeti, 51,46 sekúndum. Eins og hjá körlunum var ekki nóg að stórbæta heimsmetið til að vinna örugglega því Muhammad var í forystu nánast allt hlaupið og hljóp á 51,58 sekúndum. Þær voru því báðar langt undir heimsmetinu sem stóð fram að leikunum. Þá hljóp Hollendingurinn Femke Bol á 52,03 sekúndum, hraðar en nokkur í sögunni hafði gert þar til í júní en fékk aðeins brons.
Þessi tvö hlaup eru að einhverju leyti lýsandi fyrir frjálsíþróttakeppnina á leikunum í Tókýó, þá sérstaklega í styttri hlaupum. Í úrslitum 800 metra hlaups kvenna á þriðjudagsmorgun settu fimm efstu persónulegt met og sex af átta í heildina. Jamaíkukonan Elaine Thompson-Herah hjó nærri heims- og ólympíumetum Florence Griffith Joyner frá árinu 1988 í 100 og 200 metra hlaupum kvenna. Og þá setti Yulimar Rojas frá Venesúela heimsmet í þrístökki kvenna, stökk 17 sentimetrum lengra en gamla metið sem sett var árið 1995.
Ný tegund gaddaskóa, ný braut og mikill hiti hefur verið nefnt sem möguleg ástæða þessarar metasúpu á leikunum. Skófatnaður hefur mikið verið í umræðunni í kringum hlaup síðustu árin. Nýir skór með koltrefjaplötu og þykkum sóla komu fram í götuhlaupum á seinni hluta síðasta áratugar sem varð til þess að met í maraþoni og öðrum slíkum hlaupum hríðféllu. Eiga skórnir, sem Nike framleiddi upphaflega, að gefa hlaupurum 3-4% forskot á þá sem hlaupa í hefðbundnum hlaupaskóm.
Nú hefur sama tækni rutt sér til rúms meðal gaddaskóa þar sem notast er við þykkari sóla en áður hafa sést og fyrrnefnda koltrefjaplötu. Á þessi samsetning að veita hlaupurum endurkast og þannig aukinn kraft í hverju skrefi og bentu margir á skóna þegar heimsmet voru slegin í 5.000 og 10.000 metra hlaupi karla og kvenna síðasta árið.
Eins og í götuskónum hefur Nike verið fremst í flokki í þróun þessarar nýju tegundar gaddaskóa og gagnrýndi Karsten Warholm fyrirtækið fyrir að setja hálfgert trampólín undir íþróttamennina. „Ég skil ekki af hverju þú ættir að setja eitthvað undir sprettskó,“ sagði hann eftir sigurinn í 400 metra grindahlaupinu í Tókýó. Þá kallaði hann skóna „kjaftæði“ en Rai Benjamin hljóp einmitt í skóm frá Nike.
Warholm hleypur sjálfur í skóm frá Puma sem nýta sér nýju tæknina að einhverju leyti, hafa koltrefjaplötu í sólanum. „Auðvitað verður tæknin alltaf til staðar. En ég vil líka hafa þetta þannig að það sé hægt að bera saman niðurstöður hlaupa því það er mikilvægt.“
Mun ítarlegar er fjallað um metaregnið í Tókýó í sunnudagsblaði Morgunblaðisins.