Arna Sigríður Albertsdóttir, fyrsti Íslendingurinn sem keppir í handahjólreiðum á Ólympíumóti fatlaðra, æfði í fyrsta sinn í dag á Fuji-kappakstursbrautinni í Japan þar sem hún keppir í tveimur greinum á þriðjudag og miðvikudag.
Brautin er mjög þekkt en þar hefur m.a. verið keppt í Formúlu-1 kappakstri. Arna sagði við mbl.is að brautin hefði reynst erfiðari en hún átti von á, en væri jafnframt mjög skemmtileg og það væri afar spennandi verkefni að taka þátt í keppni þar á þessum vettvangi.
Viðtal við Örnu Sigríði mun birtast í Morgunblaðinu í fyrramálið en Ragnheiður Eyjólfsdóttir aðstoðarkona hennar á mótinu tók meðfylgjandi myndir af Örnu við æfingar í brautinni í dag. Mikil náttúrufegurð er á þessum slóðum en brautin er í bænum Oyama, um 80 kílómetra norður af Tókýó, við fjallsrætur Fuji, þekktasta fjalls Japana.