Bretar sigursælir í badminton

Íslandsmeistarinn Kári Gunnarsson tapaði í 16 manna úrslitum í einliðaleik …
Íslandsmeistarinn Kári Gunnarsson tapaði í 16 manna úrslitum í einliðaleik karla. Sportmyndir.is

Allir íslensku leikmennirnir í badmintonkeppni Reykjavíkurleikanna eru fallnir úr keppni. Bretar hafa verið sigursælastir á mótinu til þessa og eiga átta keppendur í úrslitunum á morgun. Þá keppa tveir Danir, tveir Finnar, Portúgali og Hollendingur einnig til úrslita.

Margrét Jóhannsdóttir og Sara Högnadóttir komust lengst íslensku keppendanna í mótinu en þær komust í 8 liða úrslit í tvíliðaleik kvenna og Margrét komst einnig í 8 manna úrslit í einliðaleik kvenna. Íslandsmeistarinn Kári Gunnarsson tapaði í 16 manna úrslitum í einliðaleik karla fyrir Pedro Martins frá Portúgal en hann keppir til úrslita á morgun.

Úrslitaleikirnir hefjast kl.10 í TBR húsinu og er áætlað að þeim ljúki um kl.13. Hér er hægt að sjá leikjaröðina á morgun og fylgjast með gangi mála. Búast má við mjög jöfnum og skemmtilegum úrslitaleikjum á morgun. Flestir keppendanna í úrslitum eru að berjast við að tryggja sér rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar og gera því allt til að tryggja sér sem flest stig í þeirri baráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert