Leikið var til úrslita í badmintonkeppni WOW Reykjavik International Games í TBR-húsinu í dag. Keppendur frá Malasíu sýndu mikla yfirburði í einliða- og tvíliðaleik kvenna en í öðrum greinum voru úrslitaleikirnir jafnari.
Li Lian Yang frá Malasíu sigraði samlöndu sína Lyddia Yi Yu Cheah örugglega í einliðaleik kvenna, 21-8, 21-11. Þær Yang og Cheah unnu síðan saman tvíliðaleik kvenna gegn Grace King og Hope Warner frá Englandi 21-6 og 21-16.
Í einliðaleik karla sigraði Subhankar Dey frá Indlandi Kalle Koljonen 21-11 og 21-17. Í tvíliðaleik karla sigruðu Pólverjarnir Pawel Pradzinski og Jan Rudzinski Englendingana Zach Russ og Steven Stallwood í mjög jöfnum og spennandi leik 24-22, 10-21 og 21-16.
Sjö ensk pör tóku þátt í tvenndarleik á mótinu og komust tvö þeirra alla leið í úrslit. Þar sigruðu þau Callum Hemming og Fee Teng Liew Steven Stallwood og Hope Warner í spennandi þriggja lotu leik 19-21, 21-16 og 21-11.
Erlendu keppendurnir voru mjög ánægðir með mótið og aðstöðuna í TBR-húsinu en fannst sumum ansi kalt á Íslandi segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum mótsins.