Kristján Þór setti glæsilegt vallarmet

Kristján Þór Einarsson stoltur við skortöfluna í dag.
Kristján Þór Einarsson stoltur við skortöfluna í dag. Ljósmynd/GSÍ

Kristján Þór Einarsson setti í dag glæsilegt vallarmet á Korpúlfsstaðavelli þegar hann lék á 64 höggum eða sjö undir pari á þriðja keppnisdeginum á Smáþjóðaleikunum.

Kristján fékk alls sjö fugla og tapaði ekki höggi. Hann er efstur í einstaklingskeppninni á 12 höggum undir pari samtals en íslenska sveitin er með 22 högga forskot fyrir lokahringinn á laugardag.

Haraldur Franklín Magnús er í þriðja sæti í einstaklingskeppninni á tveimur höggum undir pari samtals en hann lék á pari vallar í dag, eða 71 höggi.  Sandro Piaget frá Mónakó er annar á tveimur höggum undir en hann lék á 66 höggum í dag.

Andri Þór Björnsson er jafn í 4. sæti á tveimur höggum yfir pari samtals en tvö bestu skorin telja í liðakeppninni í hverri umferð.

„Þetta var í raun voðalega rólegt allt saman en ég kom mér í mörg færi fyrir fugli og hefði getað verið á mun betra skori áður en ég kom á 13. braut,“ sagði Kristján Þór en hann var á þeim tíma búinn að fá þrjá fugla.

Hann fékk fjóra fugla í röð og var óstöðvandi á þeim holum. „Ég átti mjög gott innáhögg á 13., sem er par 3, og fékk fugl þar. Ég setti niður sex metra pútt fyrir fugli á 14., fjögurra metra pútt fyrir fugli á 15., og „klíndi“ hann við holuna á 16. Það gekk allt upp á þessum holum,“ sagði Kristján Þór eftir hringinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert