Veiðimaðurinn er þessu sinni fékk áskorun frá Árna í Nesi um að svara nokkrum skemmtilegum spurningum sem við lögðum fyrir hann.
Nafn: Erling Ingvason
Hvenær landaðir þú fyrsta laxinum? Fyrsti laxinn sem ég setti í var 18 punda hængur í Stórafossi í Laxá í Aðaldal árið 1975, þegar ég var 10 ára, en pabbi sá um að landa honum fyrir mig. Árið eftir setti ég svo í 6 punda hæng á Suðureyrinni í Laxá í Aðaldal sem Stebbi bróðir minn hjálpaði mér að landa með apparati sem fallið er í gleymskunnar dá; Tailer.
Hver er stærsti lax sem þú hefur veitt? 110 cm, skráður 26 pund, árið 2003 á Hairy Mary einkækju nr. 6 frá Pétri Steingrímssyni á Brúarflúð í Laxá í Aðaldal.
Segðu okkur frá besta veiðideginum? Allir veiðidagar eru góðir dagar, erfitt að velja einn úr. Frá því nýlega kemur upp í hugann 1.júlí 2010 en þá fékk ég tvo lúsuga 96 cm hænga í veiðistaðnum Trölla í Hafralónsá hvorn á fætur öðrum. Ofboðslega sterkir fiskar. Sá seinni tók fluguna tvisvar ! Það var ekki slæmur morgunn.
En hvernig var versti veiðidagurinn? Minnist þess ekki að hafa átt vondan veiðidag, þegar maður á góða veiðifélaga, og ég á þá bestu veiðifélaga sem ég get hugsað mér, þá eru allir veiðidagar góðir, jafnvel þótt ekkert veiðist og veðrið sé viðbjóður. Það mikilvægasta í veiðinni eru hvorki stangirnar eða hjólin heldur veiðifélagarnir.
Hvaða flugu notar þú mest og af hverju? Hairy Mary einkækju nr.6 frá Pétri Steingrímssyni af því að hún er svo falleg hjá honum, og reyndar Sally líka...já og...
Hver er uppáhaldsáin eða vatnið þitt? Laxá í Aðaldal og stutt á eftir kemur Hafralónsá í Þistilfirði.
Hvert er vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í veiði? Maður þarf að kunna að skammast sín til þess að finnast eitthvað vandræðalegt. Það var mjög vandræðalegt fyrir lax einn sem stökk upp úr Laxánni, neðan við virkjunina sem spriklaði svo fyrir framan mig og bað um gott veður sem hann fékk ekki heldur endaði sem kvöldverður hjá Einari á Einarsstöðum, pabbi hafði heitið á hann en þegar klukkan var að verða tíu og Einar virtist ekki ætla að fá neitt í soðið þá gerðist þetta. Kannski voru þarna æðri öfl að verki.
Golf eða veiði? Bæði, var einu sinni að koma úr veiði, ósofinn á Golf undir morgun og sofnaði og snerist þrjá hringi á veginum og endaði niður í fjöru...vaknaður. Hvorugan sakaði, Golf eru góðir bílar.
Á hvern skorar þú að svara næst? Vin minn og veiðifélaga, Friðrik Þór Friðriksson, sá getur nú sagt þér sögurnar!
Við þökkum Erling fyrir og óskum honum góðra stunda við bakkana í sumar.
Lengd á laxi | Veiðisvæði | Veiðimaður | Dagsetning Dags. |
---|---|---|---|
102 cm | Hvítá við Iðu | Ársæll Þór Bjarnason | 19. september 19.9. |
101 cm | Víðidalsá | Stefán Elí Stefánsson | 4. september 4.9. |
101 cm | Laxá í Dölum | Hafþór Jónsson | 27. ágúst 27.8. |
102 cm | Haukadalsá | Ármann Andri Einarsson | 23. ágúst 23.8. |
103 cm | Laxá í Aðaldal | Birgir Ellert Birgisson | 12. ágúst 12.8. |
103 cm | Miðsvæði Laxá í Aðaldal | Máni Freyr Helgason | 11. ágúst 11.8. |
101 cm | Laxá í Aðaldal | Agnar Jón Ágústsson | 10. ágúst 10.8. |