ATH.: Upplýsingarnar sem hér koma fram eru úreltar. Skoðið frekar Framúrskarandi fyrirtæki 2021.

606 Einhamar Seafood ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 240
Landshluti Suðurnes
Atvinnugrein Landbúnaður, skógrækt og fiskveiðar
Starfsemi Útgerð smábáta
Framkvæmdastjóri Alda Agnes Gylfadóttir
Fyrri ár á listanum 2018
Framúrskarandi 2019

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 3.627.386
Skuldir 2.354.686
Eigið fé 1.272.700
Eiginfjárhlutfall 35,1%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 3
Endanlegir eigendur 2
Eignarhlutur í öðrum félögum 8
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Útgerð smábáta

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

„Mest upptekin af veiði og veðri“

Alda Agnes er framkvæmdastjóri Einhamars Seafood.
Alda Agnes er framkvæmdastjóri Einhamars Seafood. Kristinn Magnússon

Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood, segir karla og konur uggandi yfir útflutningi á óunnum fiski og þróun á fiskmarkaðsverði á hráefni.

„Afurðaverð stendur ekki undir þeim hækkunum sem orðið hafa á hráefnismörkuðum hér heima og helsta viðfangsefnið er að sækja hækkanir á afurðaverði eins og hægt er. Brexit er yfirvofandi og enginn veit hvaða áhrif það mun hafa á fiskkaup Breta, en þeir eru meðal okkar stærstu viðskiptavina. Annars gengur þetta allt sitt vanagang, við erum helst upptekin af veiðum og veðri eins og alla daga ársins.“


Hvernig er að starfa í þeim iðnaði sem þú gerir?

„Það er hrikalega skemmtilegt og gefandi. Það er svo gaman að framleiða, búa eitthvað raunverulegt til og selja. Það er mikill hraði í ferskfiskvinnslu eins og okkar og aldrei dauð stund. Það umhverfi á vel við mig.“

Fyrirtæki að sjálfvirknivæðast

Er mikið um tækniframfarir í iðnaðinum og nýtir fyrirtæki þitt sér stuðning við rannsóknir og þróun sem fáanlegar eru í dag í gegnum sem dæmi Tækniþróunarsjóð?

„Það er mjög hröð tækniþróun í íslenskum sjávarútvegi og fyrirtæki eru ört að sjálfvirknivæðast til að spara bæði mannafla, auka afköst og nýtingu. Einhamar Seafood hefur ekki farið í slíka fjárfestingu enn sem komið er.“ 

Hvernig hafa rekstrartölur og afkoma fyrirtækisins verið á undanförnum árum?

„Árin eftir 2015 voru erfið. Það gerðist allt í einu ef svo má að orði komast. Nígeríumarkaður hrundi í janúar 2016 um tæp 80%, innflutningsbann Rússa, sjómannaverkfallið, veiðigjöld stökkbreyttust og brexit skall á, öllum að óvörum leyfi ég mér að fullyrða. Þetta voru erfið rekstrarár fyrir okkur og allflesta tel ég í sambærilegum fyrirtækjum. Árið 2018 fór þetta aðeins að réttast við, útflutningur til Nígeríu er smám saman að aukast og verð að hækka. Þetta er hinsvegar mjög viðkvæmt rekstarumhverfi og þarf lítið til að fjari undan, sbr. hækkun á hráefnismörkuðum ef afurðaverð fylgja ekki.“

Passar upp á öll smáu atriðin

Hvað leggur þú áherslu á í þínum daglega rekstri?

„Fyrir utan það að hráefnisöflun er alltaf númer eitt, tvö og þrjú, þá segi ég að passa upp á öll smáatriði sem viðkoma vinnslu á hráefni og meðferð afla og í raun í öllum verkefnum fyrirtækisins. Við erum gott teymi, öll sem eitt, sem störfum hjá Einhamar Seafood og erum meðvituð um að vinna þetta í sameiningu með sameiginlegt markmið. Að veiða, vinna og framleiða fyrsta flokks vöru sem stenst samanburð í gæðum á öllum þeim mörkuðum sem við framleiðum inn á.“

Unnið við ákveðinn aga

Hvaða augum lítur þú á mannauðinn í fyrirtækinu og hvað gerir þú til að ná fram góðum afköstum og starfsánægju?

„Velgengni Einhamars Seafood er mannauður fyrirtækisins, án efa. Hér er unnið við ákveðinn aga, sem öllum er fullkunnugt um og starfsfólkið okkar kann vel að meta. Við erum gott teymi eins og áður sagði, valinn maður í hverju rúmi. Ofboðslega gott starfsfólk, án efa það allra besta að mínu mati. Hjá okkur er einstaklingsbónus sem er afkastahvetjandi. Í frítíma hittumst við reglulega, förum í keilu, höldum árshátíðir, förum í starfsmannaferðir erlendis, að ógleymdum jólahlaðborðinu okkar og þetta hefðbundna sem gert er til að hrista hópinn saman.“

Hver er stærsta áskorunin við að vera í þinni grein í dag?

„Að halda sig við þá línu sem lögð er í okkar fyrirtæki. Að framleiða hágæða vöru fyrir vel borgandi viðskiptavini í harðri samkeppni bæði við íslenska framleiðendur og það sem erfiðara er, niðurgreiddan sjávarútveg annarra landa, þar sem skilningur og stuðningur stjórnvalda er með allt öðrum hætti en við eigum að venjast.“

Vilja vera með hágæða vöru sem hægt er að rekja

En hvar liggja tækifærin?

„Tækifærin liggja í raun í því sama og áskoranirnar. Það er sannarlega markaður „high end“ neytenda sem vilja afurðir beint frá býli, ef svo má að orði komast. Viðskiptavinir sem vilja hreina afurð, vilja vita hvaðan hún er og eru tilbúnir að greiða fyrir hana. Þarna erum við og þarna viljum við vera.“

Hvernig er að vera kona í þinni grein?

„Það er alveg hreint ágætt. Það koma augnablik ég segi það ekki, en í langflestum tilfellum er það bara virkilega gaman og strákarnir eru dásamlegir.“

Dreymdi þig alltaf um að starfa við það sem þú gerir í dag?

„Já og nei. Ég lærði fiskiðn seint á síðustu öld og ætlaði mér alltaf að verða verkstjóri í fiski. Ég byrjaði þar, fór á sjóinn og endaði svo í að læra viðskiptalögfræði á fertugsaldri. Þá taldi ég framtíðina liggja í bankastörfum, en endaði aftur í sjávarútvegi þar sem fiskiðnin og lögfræðin nýtast frábærlega saman í því sem ég starfa í dag.“

Traust viðskiptasambönd mikilvæg

Hvaða máli skiptir fyrir þig persónulega að fyrirtækið veljist sem Framúrskarandi fyrirtæki á þessu ári?

„Það er ákveðin viðurkenning á störfin okkar. Klapp á bakið og staðfesting á því að við séum á réttri leið í okkar rekstri. Svo er það einfaldlega bara skemmtilegt að fá þessa viðurkenningu.“

Hvað gerir fyrirtæki framúrskarandi að þínu mati?

„Að það sé með jákvæða afkomu yfir ákveðinn tíma. Stöðugleiki sé fyrir hendi og að reksturinn sé í jafnvægi. Að fyrirtækið sé fyrir ofan meðaltal í greininni.“

Hvað skiptir þig máli sem leiðtogi í viðskiptum?

„Ábyrgð og traust viðskiptasambönd. Að fólk vinni af heilindum í því sem það starfar frá degi til dags gagnvart sínum viðskiptavinum og samstarfsfólki.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar