294 Distica hf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 198
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Starfsemi Heildverslun með lyf og lækningavörur
Framkvæmdastjóri Júlía Rós Atladóttir
Fyrri ár á listanum 2013–2020
Framúrskarandi 2021

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 3.894.794
Skuldir 2.851.578
Eigið fé 1.043.216
Eiginfjárhlutfall 26,8%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 2
Endanlegir eigendur 8
Eignarhlutur í öðrum félögum 1
Endanleg eign í öðrum félögum 1

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni Heildverslun með heimilisbúnað

pila

Tiltölulega áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu

Júlía Rós Atladóttir er framkvæmdastjóri Distica.
Júlía Rós Atladóttir er framkvæmdastjóri Distica. mbl.is/Árni Sæberg

Júlía Rós Atladóttir hafði starfað hjá fyrirtækinu Distica í áratug þegar hún var ráðin framkvæmdastjóri þess. Þegar hún gekk frá samningi þar um grunaði hana ekki hvers konar verkefni biði hennar og samstarfsfólksins. Skömmu eftir að hún tók við starfinu skall kórónuveiran á landinu af fullum þunga og þar hlaut að koma til kasta Distica sem er leiðandi á sviði lyfja og lækningatækja hér á landi.


Júlía Rós viðurkennir að það hafi verið undarlegt að taka við fyrirtækinu á þessum tíma, þegar flestir unnu heiman frá sér og fyrirtækin um landið þvert og endilangt tóku breytingum vegna fordæmalausra aðstæðna.


Hún segir að Distica hafi hins vegar staðið á traustum grunni.
„Við rekjum sögu okkar allt aftur til ársins 1956 þannig að þetta er orðið vel þroskuð starfsemi. Hér er reynt starfsfólk og sterkir og góðir ferlar til staðar. Við erum að mestu í lyfjum og lækningatækjum þannig að starfsemin byggist mikið á gæðakröfum og ferlum sem fylgja vörum af þessu tagi. Það er mjög mikilvægt að þær séu meðhöndlaðar á réttan hátt, ekki síst með tilliti til hitastigs þar sem rangt hitastig getur haft neikvæð áhrif á virkni lyfja. Það er því verkefni sem við erum að fást við frá degi til dags.“

Tekið á móti fyrsta bóluefninu í húsnæði Distica.
Tekið á móti fyrsta bóluefninu í húsnæði Distica. mbl.is/Kristinn Magnússon


Sérþjálfað fólk á sviði heilbrigðisvísinda

Hjá Distica starfa um 90 manns, starfsfólkið er sérþjálfað og að hluta til menntað fólk á sviði heilbrigðisvísinda.


„Við erum þjónustufyrirtæki og höfum skilgreint okkur á þeim forsendum. Við höfum verið á þjónustuvegferð þar sem viðskiptavinurinn hefur verið í framsætinu síðasta árið. En við störfum við vörustýringu og sjáum um að flytja inn lyf og lækningatæki frá erlendum birgjum fyrir okkar systurfyrirtæki innan Veritas-samstæðunnar og aðra utanaðkomandi aðila, þannig að þetta snýst um innflutning og hýsingu vara í vöruhúsum okkar, móttöku pantana og senda svo viðskiptavinum okkar, apótekum og sjúkrahúsum, vörur sem við afgreiðum. Starfsfólkið okkar sinnir innkaupum, birgðastýringu, samskiptum við viðskiptavini okkar, tiltekt pantana og dreifingu, starfsmenn gæðadeildar vinna síðan þvert á alla starfsemi fyrirtækisins og verkefni þeirra er að tryggja gæði lyfjanna sem við hýsum og dreifum.“


Þessi hópur fékk í fangið risavaxið verkefni þegar Distica var falið að dreifa öllu bóluefni gegn kórónuveirunni hér á landi.


„Þetta hefur í raun verið ævintýralegt. Það er að verða komið ár síðan fyrsti bóluefnaskammturinn kom til landsins. Við erum afar stolt af því að hafa verið valin til að sjá um innflutning, hýsingu og dreifingu á öllum Covid-bóluefnunum sem eru notuð hér á landi.“


Mun flóknara en talið var í fyrstu

Bendir Júlía Rós á að verkefnið hafi tekið miklum breytingum frá því sem upphaflega var lagt upp með.


„Við höfum þurft að bregðast hratt við. Í fyrstu héldum við að allt bóluefnið kæmi í einni sendingu og jafnvel bara ein tegund en svo flæktist þetta og flæktist og að lokum reyndust þetta fjögur bóluefni sem komu í litlum skömmtum. Það hafa komið sendingar í hverri einustu viku frá því að innflutningurinn hófst. Þetta var mjög flókið, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða fjóra ólíka lyfjaframleiðendur með sérstakar kröfur. Svo þurfti nýtt ferli fyrir nýtt bóluefni því hvert og eitt þeirra þarf að geyma við ákveðið hitastig. Það er eins og alltaf í þessum geira að við getum ekkert fyrr en gæðadeildin okkar er búin að setja upp ferlana og gilda þá og gilda flutningsumbúðir þannig að tryggt sé að þær haldi réttu hitastigi.“


Segir hún að þetta tímabil hafi reynst mjög lærdómsríkt og hlutirnir gengið í raun ótrúlega upp.


„Við erum líka stolt af samvinnunni við yfirvöld. Eftir Covid-verkefni þetta þá er samvinna einkafyrirtækja og ríkisins í lyfjamálum orðin sterkari. Þetta reyndist mikið átaksverkefni.“
Distica var valið til þess að annast þetta mikilvæga verkefni í baráttunni við faraldurinn. Skýrist það einkum af því að þrír framleiðendanna voru þá þegar í þjónustu fyrirtækisins, þ.e. Astra Zeneca, Pfizer og Janssen, og þá var ákveðið að það myndi einnig sjá um dreifinguna og umsjónina með Moderna. Segir Júlía Rós að sú ákvörðun hafi verið mikilvæg. Ekki hefði verið heppilegt ef fleiri en eitt fyrirtæki hefði þurft að stýra þessari vinnu.


Í ársreikningi Distica fyrir árið 2020 má sjá að veltan jókst um nærri fjóra milljarða á árinu og nam ríflega 24 milljörðum króna. Júlía Rós segir að þessi mikla aukning tengist faraldrinum en þó ekki bóluefnunum sem slíkum.


„Við flytjum inn mikið magn hjúkrunarvara sem notaðar hafa verið í baráttunni í faraldrinum. Það tengist ekki bóluefnunum sem slíkum heldur lækningatækjum á borð við sýnatökupinnana og tæki sem notuð eru til að greina Covid-sýni. Þá erum við með hlífðarbúnað ýmiskonar, grímur, hanska, spritt og slíkt og það varð gríðarleg aukning á innflutningi þessara vara á þessum tímum, en einnig hefur samstæðan verið að fjölþætta í sínum rekstri, t.d. að fara út í aukna sölu annarra vara en lyfja og hefur sá hluti einnig aukist verulega.“


Hún segir áskoranir fylgja því þegar stærsti viðskiptavinur fyrirtækisins er ríkið en ekki einkaaðilar.


„Þessi geiri er sérstakur að því leyti að lyfjaverð á Íslandi er ákvarðað af ríkinu. Það er gefin út lyfjaverðskrá einu sinni í mánuði þannig að ríkið setur bæði verðið og er viðskiptavinurinn. Það gerir það að verkum að þessi markaður er ólíkur flestum. En það að vinna í lyfjageiranum er flókið og það eru mjög margir sérfræðingar sem koma að því að meðhöndla vörurnar. Þær eru einnig lífsnauðsynlegar. Það rjúka ekki allir upp til handa og fóta þótt einhverjar vörur vanti í landinu á hverjum tíma en ef það vantar lyf þá gegnir öðru máli. Samvinnan við yfirvöld gengur vel og við vinnum þetta vel saman.“
Júlía Rós segir það ekki sjálfgefið að fyrirtæki eins og Distica sé á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki. Það sé afrakstur þrotlausrar vinnu.


„Distica byggir rekstur sinn á styrkum stoðum sem teygja sig langt aftur. Við leggjum mikið upp úr því að hafa trausta og rétta ferla. Við viljum gera hlutina rétt í fyrsta skiptið. Við leitum allra leiða til að útrýma sóun og stytta ferla. Það er gert til þess að tryggja gott vöruverð og sinna viðskiptavinunum sem best. Við erum mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfi landsins og því tökum við hlutverk okkar mjög alvarlega. Við viljum vera traustur samstarfsaðili og að viðskiptavinir okkar geti stólað á okkur. Þess vegna erum við ótrúlega stolt af því að tilheyra þessum fámenna hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið. Starfsfólk okkar hefur unnið hörðum höndum að því að byggja upp þetta frábæra fyrirtæki.“


Og hún segir faraldurinn hafa fært fyrirtækinu lærdóm sem það muni nýta sér til þess að veita áfram framúrskarandi þjónustu.


„Það er mikið regluverk í kringum lyfjamál á Íslandi og við höfum oft verið svifasein af þeim sökum. En ég held að við höfum séð það í faraldrinum að þegar við leggjumst öll á eitt getum við verið mjög snör í snúningum án þess að það komi niður á gæðum. Þannig að ég held að við höfum lært á þessu og við getum gert meira þegar á hólminn er komið. Þetta birtist líka í því að lyfjafyrirtækin lögðust öll á eitt við að þróa þessi bóluefni mjög hratt. Það var stórkostlegt afrek og einnig að sjá hvernig allt small hér heima til að koma þessu í dreifingu. Það voru allir uppnumdir yfir því að mæta í bólusetninguna hér heima og hvernig þetta var gert, algjörlega fumlaust.“

mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar