39 Nox Medical ehf.

Stærðarflokkur Stórt
Röð innan flokks 39
Landshluti Höfuðborgarsvæði
Atvinnugrein Framleiðsla
Starfsemi Framleiðsla á búnaði til geislunar, raftækjabúnaði til lækninga og meðferðar
Framkvæmdastjóri Ingvar Hjálmarsson
Fyrri ár á listanum 2015–2022
Framúrskarandi 2023

Hvernig gengur reksturinn?

Eignir 5.163.271
Skuldir 942.936
Eigið fé 4.220.335
Eiginfjárhlutfall 81,7%
Allar fjárhæðir eru í þúsundum króna

Eigendur og eignarhald

Þekktir hluthafar 1
Endanlegir eigendur 1
Eignarhlutur í öðrum félögum 0
Endanleg eign í öðrum félögum 0

Lánshæfismat félaga í sömu grein

Meðallánshæfi félaga í atvinnugreininni FRAMLEIÐSLA

pila

Mjög áhættulítil

Meira um fyrirtækið hjá CreditInfo

Við erum bara rétt að byrja

Framkvæmdastjóri Nox Medical
Framkvæmdastjóri Nox Medical

Við ætlum okkur að hjálpa heiminum að sjá hvernig góð svefnheilsa getur verið hluti af svarinu við hækkandi kostnaði heilbrigðiskerfa. Sérstaklega þegar kemur að langvinnum sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki 2 og öðrum sambærilegum heilsufarskvillum,“ segir Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Nox Medical.

Nox Medical er íslenskt hátæknifyrirtæki sem þróar og framleiðir lækningatæki og aðrar tæknilausnir til svefnrannsókna. Fyrirtækið var stofnað árið 2006 af fræknum hópi fólks sem sá tækifæri á markaðnum og sköpuðust fyrirtækinu ófá sóknarfæri þegar fyrsta varan var sett á markað árið 2009. Ekkert lát virðist vera á því enda er Nox Medical leiðandi í þróun og framleiðslu á svefnheilbrigðislausnum á heimsvísu og veltir milljörðum á ári hverju. Að sögn Ingvars hafa tekjur Nox Medical margfaldast frá upphafsárunum til dagsins í dag og nálgast nú 5,5 milljarða á þessu ári, samanborið við 4,5 milljarða á því síðasta.

Leiðandi á alþjóðamarkaði

„Fyrsta varan fór strax í alþjóðlega dreifingu. Tveimur árum seinna hófst svo uppbygging á alþjóðlegu dreifikerfi og í kjölfarið hófst gríðarlegur tekjuvöxtur. Fyrirtækið tók svo yfir dreifingu á lækningatækjum til svefnrannsókna í Bandaríkjunum árið 2019 og sameinaðist systurfyrirtæki sínu, FusionHealth. Í kjölfar þeirrar sameiningar varð Nox Health til sem er í dag alþjóðlegur risi í svefnrannsóknum,“ lýsir hann vegferðinni og bætir við:

„Þó svo að Nox hafi náð miklum árangri síðastliðin ár þá erum við varla byrjuð. Helmingur mannkyns kvartar undan því að lélegur svefn hafi áhrif á líf þeirra. Milljarðar manna þjást af kæfisvefni, svefnleysi, fótaóeirð eða öðrum svefnsjúkdómum og Nox hefur ríka skyldu til að þróa tækni og lausnir til að hjálpa þessu fólki,“ segir hann en í dag er Nox Medical starfrækt sem ein af rekstrareiningum Nox Health með starfsstöðvar hér á landi.

Aukin þekking skilar afrakstri

Ingvar segir sérstöðu Nox Medical liggja í þeirri verulegu þekkingu sem fyrirtækið býr yfir, sterkum markaðsaðgangi og leiðandi vörum. Meðal þess sem Nox Medical þróar og framleiðir eru mælitæki, hugbúnaður, skýjalausnir og gervigreind sem notuð er í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk til að greina svefnraskanir og sjúkdóma.

„Við byggjum á mikilli þekkingu í lífeðlisfræði, tækni- og verkfræði, sterkum markaðsaðgangi og getu til að koma lækningabúnaði á markað. Nákvæmni mælitækja og gæðin í greiningarlausnum eru einstakir kostir og ekki síst hversu notendavænar lausnirnar okkar eru.“

Spurður út í framtíðarsýn fyrirtækisins segir Ingvar hana mjög skýra. Mörg teikn séu á lofti hjá Nox Medical sem mörg hver lúta að því hvernig nýta megi tækni til að bæta fyrirkomulag heilbrigðiskerfa víðs vegar um heim.

„Í samstarfi við lækna og heilbrigðisstarfsfólk um allan heim þá sjáum við fyrir okkur að tæknin frá Nox haldi áfram að hjálpa tugum milljóna manna á næstu árum. Frá stofnun höfum við átt þátt í að hjálpa 10 milljónum manna – en við erum bara rétt að byrja,“ segir hann ákveðinn.

Fjárfest í innviðum fyrirtækisins

Að sögn Ingvars hefur hagnaður Nox Medical gert fyrirtækinu kleift að auka við eigin innviðafjárfestingar. Slíkar fjárfestingar geta leitt af sér dómínóáhrif og aukið tekjur með markvissum hætti.

„Fyrirtæki sem hugsa til lengri tíma þurfa að geta gert fjárfestingar sem geta borgað sig yfir lengri tímabil. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar þarf oft að hafa kjark og skýra sýn. Við höfum séð mikinn tekjuvöxt síðustu ár og fjárfest í innviðum félagsins á sama tíma,“ segir Ingvar.

„Fjárfesting okkar í rannsóknum og þróun hefur verið umtalsverð allt frá stofnun. Með stöðugri fjárfestingu hefur fyrirtækið verið samkeppnishæft í samanburði við önnur alþjóðleg fyrirtæki. Við höfum reglulega náð að gefa út nýjar lausnir og þar með aukið hagnaðinn, yfir langan tíma. Burðugt stuðningsumhverfi íslenskra hugvitsfyrirtækja er þar lykilástæða,“ segir hann jafnframt og bendir á hve mikilvægt íslenskt endurgreiðslukerfi rannsóknar- og þróunarkostnaðar er fyrir vöxt hugverka- og tæknifyrirtækja.

„Með þessum hætti geta slík fyrirtæki vaxið yfir langan tíma og þannig skilað miklu í þjóðarbúið.“

Öflug liðsheild aðalstyrkleikinn

„Síðastliðin átta ár hefur Nox Medical verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Þegar Ingvar er inntur eftir svörum hvers vegna Nox Medical hafi komist á lista svo mörg ár í röð stendur ekki á svarinu.

„Hið augljósa svar er hin framúrskarandi liðsheild sem myndar fyrirtækið. Þetta öfluga fólk sem kemur saman og vinnur sigra sem öðrum gætu þótt ómögulegir. Okkar fyrirtækjamenning skilar sér í framúrskarandi árangri ár eftir ár.“

asthildur@mbl.is

rut sigurdardottir
mbl.is

Fleiri greinar og viðtöl

Samstarfsaðilar