„Þegar fyrirtækjum gengur vel þá gengur Íslandi vel"

Þegar fyrirtækjum gengur vel þá gengur Íslandi vel.

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins sem sýnt var á mbl.is í vikunni. Sigríður Margrét og Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, ræða í viðtalinu um nýútkominn lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Yfir 1.000 fyrirtæki hljóta vottun Creditinfo í ár.

Listinn sem birtur var í vikunni tekur til reksturs fyrirtækja á síðasta ári. Hrefna Ösp segir að töluverð breyting sé á listanum á milli ára, þ.e. á milli 2021 og 2022, þegar horft er til einstakra atvinnugreina. Þannig megi sjá aukningu í mannvirkja- og byggingarstarfsemi sem og hjá heildsölum, en aftur á móti megi greina samdrátt hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum. Þá segir Hrefna Ösp að almennt megi greina aukningu í hagnaði, þá sérstaklega hjá stórum fyrirtækjum.

Spurð um þetta segir Sigríður Margrét að landsmönnum gangi vel þegar fyrirtækjum gangi vel. Hún nefnir að 60% af allri verðmætasköpun í landinu falli launafólki í skaut.

Sigríður Margrét bætir við að mikilvægt sé að fyrirtæki skili góðri afkomu. Hún tekur dæmi af skráðu fyrirtækjunum í Kauphöllinni, sem eru að miklu leyti í eigu lífeyrissjóða landsmanna.

Hægt er að sjá brot úr þættinum hér fyrir ofan, en þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is
Samstarfsaðilar