Tap af rekstri Skýrr

Tap af rekstri Skýrr nam 156 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs, en fyrir ári var 117 milljóna króna hagnaður á sama tímabili. Upphafleg rekstraráætlun félagsins gerði ráð fyrir um 120 milljóna króna hagnaði á þessu ári. Í tilkynningu Skýrr segir, að ljóst sé að sú áætlun muni ekki standast, ekki síst vegna breyttra reikningsskilareglna við mat hlutabréfa og lakari afkomu af rekstrinum sjálfum. Reiknað er þó með að reksturinn batni á síðari hluta ársins.

Rekstrartekjur Skýrr á tímabilinu voru alls 764 milljónir, en voru 799 milljónir í fyrra. Meðal rekstrartekna á síðasta ári var söluhagnaður að fjárhæð 124 milljónir hann er nú en einungis 24 milljónir. Að söluhagnaði frátöldum jukust rekstrartekjur félagsins um 65 milljónir milli ára eða um 10%. Rekstrargjöld tímabilsins námu 752 milljónum en voru 604 milljónir á síðasta ári og hækka um 25% milli ára. Hagnaður fyrir afskriftir, það er s.k. EBITDA, er 66 milljónir en voru 239 milljónir á síðasta ári. Samkvæmt rekstraráætlun var gert ráð fyrir að EBITDA yrði um 132 milljónir. Segir í tilkynningu fyrirtækisins, að ljóst sé að rekstrarmarkmiðin á fyrri hluta ársins hafi ekki náðst, eins og greint var frá í afkomuviðvörun félagsins í júní. Það skýrist helst af miklum þróunarkostnaði við aðlögun Oracle e-Business Suite að undanförnu, miklum útlögðum kostnaði við nýafstaðið ríkisútboð, uppbyggingu á þjónustuveri vegna VeriSign og áframhaldandi þróun á kerfisleigu Skýrr hf. Varúðarniðurfærsla á hlutabréfaeign
Hrein fjármagnsgjöld tímabilsins nema samtals 193 milljónum en á síðasta ári voru fjármagnstekjur 18 milljónir. Félagið segir, að þyngst vegi að ákveðið var að gjaldfæra samtals 173 milljónir vegna óinnleysts gengistaps af hlutabréfum. Hingað til hafa hlutabréf félagsins verið færð á framreiknuðu kaupverði, en vegna þeirra miklu lækkana sem orðið hafa á skráðum hlutabréfum í eigu félagsins var ákveðið að færa þau niður til markaðsverðs. Framvegis verða bréfin metin reglulega m.t.t. markaðsverðs á hverjum tíma og munu breytingarnar verða teknar í gegnum rekstrarreikning félagsins. Á móti er um að ræða hagnað vegna sölu hlutabréfa á tímabilinu að fjárhæð 37 milljónir. Jafnframt hefur félagið orðið fyrir um 25 milljóna króna gengistapi á tímabilinu vegna lækkunar krónunnar og áhrif dóttur- og hlutdeildarfélaga eru neikvæð um 18 milljónir. Erfiður rekstur dótturfélaga
Skýrr átti í lok tímabilsins eignarhluti í alls 16 fyrirtækjum, þar af er eitt dótturfélag, Kuggur ehf. og þrjú teljast hlutdeildarfélög, Skrín ehf., Vestmark ehf. og Miðavefur ehf. Rekstur þessara félaga gekk erfiðlega á tímabilinu og eru áhrif þeirra neikvæð um 18 milljónir. Í tilkynningu Skýrr segir, að unnið hafi verið að endurskipulagninu á rekstri þessara félaga. Þegar hafi verið gengið frá því að skipta rekstri Kuggs upp, þannig að Skýrr mun taka sem nemur sínum eignarhlut í rekstrinum, beint inn til sín og fella það saman við aðra starfsemi. Skýrr segir, að hingað til hafi einungis þessi áhrif af dóttur- og hlutdeildarfélögum verið færð yfir á rekstur, en nú sé gerð sú breyting að eignarhlutir í öðrum fyrirtækjum muni hugsanlega hafa áhrif á rekstur félagsins á hverjum tíma. Þyngst vegi í því sambandi eignarhlutir félagsins í Columbus IT Partner, Línu net og Decode genetics. Fjárfesting í þessum félögum hafi verið hugsuð til lengri tíma, en þróun markaðsverðs þessara félaga geti þannig haft áhrif á rekstrarniðurstöðu Skýrr. Verkefnastaða tryggð næstu misseri
Skrifað var í júlí undir samning milli Skýrr hf. og fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs og stofnana hans, um ný fjárhags- og mannauðskerfi. Samningsupphæðin nemur 819 milljónum og tekur til kaupa á stöðluðum hugbúnaði, Oracle e-Business Suite og Workplace, vinnu við uppsetningu og innleiðingu, kennslu og viðhaldsgjöldum fyrsta árið.Í tilkynningu Skýrr segir að ljóst sé að með þessum samningi sé verkefnastaða félagsins tryggð næstu misserin. Auk þess sé fyrirtækið að vinna að innleiðingu á Oracle fyrir Reykjavíkurborg og Varnaliðið, auk ýmissa annarra verkefna. Upphafleg rekstraráætlun félagsins gerði ráð fyrir um 120 milljóna króna hagnaði á árinu 2001. Félagið reiknar með að reksturinn batni á síðari hluta ársins og gerir endurskoðuð rekstraráætlun ráð fyrir að hagnaður fyrir afskriftir, EBITDA, verði um 100 milljónir eða 34 milljónum meiri en var á fyrri hluta ársins.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka