Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn, Íshug, hefur keypt 19,6% hlut í íslenska tölvuleikjafyrirtækinu CCP hf. Eftir kaupin er Íshug stærsti hluthafinn í félaginu.
Að sögn Sigurðar Smára Gylfasonar, framkvæmdastjóra Íslenska hugbúnaðarsjóðsins, er þróun á fyrstu vöru CCP, tölvuleiknum EVE - The second Genesis, langt komin og gera áætlanir ráð fyrir að hann komi út í byrjun sumars. CCP á nú í viðræðum við nokkra erlenda aðila um útgáfu og dreifingu á leiknum á heimsvísu. Leikurinn er spilaður á Netinu og greiða þátttakendur fyrir aðgang með áskrift.
Ef áætlanir ganga eftir munu allt að 250 þúsund notendur geta leikið EVE í einu og byggist tekjuhlið viðskiptahugmyndar CCP einkum á þeim notendafjölda. Um 30 þúsund einstaklingar hafa skráð sig vegna prófana á lokagerð leiksins.
Sigurður Smári segir að ef áætlanir gangi eftir eigi CCP mikla möguleika á þessum markaði en margt spennandi sé að gerast á tölvuleikjamarkaðnum.
Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn á hlut í um 20 fyrirtækjum og hafa þegar um 10 erlendir fjárfestar komið að þeim. Nýverið náðust samningar við finnsku áhættufagfjárfestana Magnolia Ventures og Hiidenkivi Investment um kaup á um 14% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Menn og mýs sem Íshug á um 18% í.
Menn og mýs er þekkingarfyrirtæki á sviði DNS, Domain Name System, sem er grunnþjónusta á Netinu eða nokkurs konar símaskrá fyrir Netið. Starfsmenn Manna og músa eru 21 talsins á Íslandi, í Sviss og Bandaríkjunum og hefur talsvert verið fjallað um fyrirtækið í erlendum fjölmiðlum, ss. Financial Times, The Wall Street Journal og CNBC sjónvarpsstöðinni.
Eins hefur áhættufagfjárfestirinn Argnor Wireless Ventures keypt um 27% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Maskinu sem Íshug á um 17% í. Maskina framleiðir vöru sem nefnist The Wizard. The Wizard er umhverfi sem gerir notendum farsímaþjónustu kleift að búa til sínar eigin farsímaþjónustu og dreifa þeim á kunningja og vini.
Fyrirtæki sem hafa verið að gera góða hluti hafa staðið af sér erfiðleikana og ríkir meiri bjartsýni nú og menn meira niðri á jörðinni heldur en áður."
Sigurður Smári segir að stíflan hafi brostið á tveimur síðustu mánuðum ársins sem skilaði m.a. erlendri fjárfestingu í Maskinu og Mönnum og músum. Sem og innkomu Nýsköpunarsjóðs að Íslenska hugbúnaðarsjóðnum í lok desember. "Við erum í stöðugum viðræðum við fjárfesta og við erlend fyrirtæki um mögulegar sameiningar við innlend hugbúnaðarfyrirtæki ásamt aðkomu að Íslenska hugbúnaðarsjóðnum með einum eða öðrum hætti. Það er því fullt af góðum hlutum í gangi án þess að hægt sé að fara nánar út í það á þessu stigi," segir Sigurður Smári.