Fjarri raunveruleikanum

Árni Haukson, forstjóri Húsasmiðjunnar, og Hallbjörn Karlsson, framkvæmdastjóra sölusviðs Húsasmiðjunnar, hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna bókar Boga Þórs Siguroddssonar fyrrverandi forstjóra Húsasmiðjunnar. Segja þeir þar að sú mynd sem bókarhöfundur dregur upp, og þau samtöl sem hann margsinnis setji í gæsalappir og telji sig þannig muna frá orði til orðs, séu óravegu frá þeim raunveruleika sem við blasi.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

"Á undanförnum dögum hafa undirritaðir verið spurðir margsinnis um okkar hlið á því máli sem fyrrverandi forstjóri Húsasmiðjunnar, Bogi Þór Siguroddsson, gerir að umtalsefni í nýútkominni bók sinni. Við höfum vikið okkur undan því að svara á opinberum vettvangi um einstök efnisatriði málsins og leiðrétta bæði rangfærslur og misskilning sem víða gætir í frásögn forstjórans fyrrverandi. Sú afstaða okkar að láta kyrrt liggja helgast einkum af þeirri staðreynd, sem reyndar er rauður þráður í bókinni og sömuleiðis í fjölmiðlaspjalli höfundarins, að atburðarásin öll ræðst því miður af erfiðum fjárhagslegum aðstæðum Boga Þórs undanfarin tvö ár. Enda þótt bókarhöfundur segi í formála að eignarhaldsbreytingar á Húsasmiðjunni hafi verið rothögg fyrir fjárhag sinn má glögglega sjá af lestri bókarinnar að fjárhagsvandi Boga Þórs er ekki afleiðing af atburðarásinni heldur orsök. Á því tvennu er mikill munur.

Ásakanir Boga Þórs eru margvíslegar. Þær beinast að okkur, Búnaðarbankanum, Jóni Snorrasyni fyrrverandi stjórnarformanni Húsasmiðjunnar og nokkrum nafngreindum einstaklingum sem öllum er það sameiginlegt að eiga að hafa snúið baki við Boga á ögurstundu. Sömuleiðis gerir höfundur því skóna að með viðskiptabrellum hafi undirritaðir hagnast um hundruð milljóna króna eins og hendi væri veifað og annars staðar í bókinni gefur höfundur í skyn að seljendum hafi verið mismunað, bankastarfsmaður hafi hagnast óeðlilega og áfram mætti lengi telja. Ekkert af þessu á við nokkur rök að styðjast. Þeir sem best þekkja til taka þó einnig eftir veigamiklum þáttum málsins sem ekki eru gerðir að umtalsefni í bókinni. Þau atriði, rétt eins og svo margar skýringar og svör við ásökunum höfundarins, eru tengd fjárreiðum hans. Einmitt þess vegna höfum við forðast að ræða málið í einstökum efnisatriðum á opinberum vettvangi. Sú mynd sem bókarhöfundur dregur upp, og þau samtöl sem hann margsinnis setur í gæsalappir og telur sig þannig muna frá orði til orðs, er að okkar mati óravegu frá þeim raunveruleika sem við blasir. Í trausti þess að starfsfólk og viðskiptavinir Húsasmiðjunnar gjaldi varhug við þeim fullyrðingaflaumi sem bókin inniheldur, og með hliðsjón af því hve atburðarásin er samofin persónulegum aðstæðum bókarhöfundar, munum við víkja okkur undan efnislegri umræðu í fjölmiðlum eftir því sem kostur er og vonumst við til þess að þeirri ákvörðun verði sýndur skilningur."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK