Grandi og Haraldur Böðvarsson sameinast í HB Granda

Haraldur Böðvarsson og Grandi sameinast undir nafninu HB Grandi.
Haraldur Böðvarsson og Grandi sameinast undir nafninu HB Grandi.

Stjórnir Granda hf. og Haraldar Böðvarssonar hf. hafa ákveðið að sameina fyrirtækin. Munu samþykktir Granda gilda um hið sameinaða félag að öðru leyti en því að að nafn félagsins breytist í HB Grandi hf. og telst Grandi vera yfirtökufélag. Samruninn miðast við 1. janúar 2004 og tekur hið nýja félag við öllum rekstri, eignum, skuldum, réttindum og skyldum Haraldar Böðvarssonar frá þeim tíma.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir, að breytingin sé gerð til að einfalda og hagræða í rekstri fyrirtækjanna. Grandi keypti allt hlutafé Haraldar Böðvarssonar fyrir 7800 milljónir króna. Vegna kaupanna var stofnað til skulda samtals að fjárhæð um 3000 milljónir króna, en 4800 milljónir króna voru greiddar með reiðufé Granda. Þar af fengust 985 milljónir króna við sölu á þeim tæplega 10% af eigin hlutum félagsins, sem heimamenn á Akranesi keyptu. Annað reiðufé fékkst að mestu við sölu á eignarhlutum Granda í öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Nýtt skipurit tekur gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Forstjóri HB Granda verður Sturlaugur Sturlaugsson og aðstoðarforstjóri verður Kristján Þ. Davíðsson. Yfirmenn fjármála, útgerðar, landvinnslu og veiða og vinnslu uppsjávarfisks verða sömu menn og áður stýrðu þessum deildum hjá Granda, þeir Jóhann Sigurjónsson fjármálastjóri, Rúnar Þór Stefánsson útgerðarstjóri, Svavar Svavarsson framleiðslustjóri og Torfi Þ. Þorsteinsson deildarstjóri uppsjávarfiskdeildar. Haraldur Sturlaugsson verður yfirmaður starfsmanna- og umhverfismála og Eggert B. Guðmundsson yfirmaður markaðsmála. Nýr fjárreiðustjóri er Bergþór Guðmundsson, sem gengt hefur starfi fjármálastjóra Haraldar Böðvarssonar mörg undanfarin ár.

Höfuðstöðvar og aðalskrifstofa HB Granda verða í Reykjavík og þar mun yfirstjórn fyrirtækisins hafa aðsetur. Undanskildir eru þó yfirmenn uppsjávarfiskdeildar og starfsmanna- og umhverfismála, auk fjárreiðustjóra, en þeir munu hafa aðsetur á skrifstofu fyrirtækisins á Akranesi.

Í tilkynningunni segir, að aukin áhersla verði lögð á markaðsmál og hefur Eggert B. Guðmundsson verið ráðinn markaðsstjóri til að efla þann þátt starfseminnar. Eggert er verkfræðingur og MBA að mennt og hefur undanfarin ár starfað á sviði markaðsmála í Evrópu og Bandaríkjunum.

Heildaraflaheimildir félagsins í botnfisktegundum á fiskveiðiárinu sem er að líða eru tæp 56.000 tonn og að teknu tilliti til kvótastöðu í upphafi og lok árs, kvótaleigu og tegundatilfærslu er áætlað að heildarbotnfiskafli ársins 2004 verði rúm 60.000 tonn. Karfi er áætlaður um 56% af afla, ufsi um 14%, þorskur um 14% og ýsa um 7%. Áætlað er að úthlutaður kvóti félagsins af uppsjávartegundum verði samtals um 177.000 tonn á árinu.

Rekstur skipa HB Granda hf., sem eru samtals 12 talsins, 5 frystiskip, 4 ísfiskskip og 3 uppsjávarveiðiskip, hefur þegar verið samræmdur.

Vinnsla fiskiðjuveranna í Reykjavík og á Akranesi verður sérhæfð á þann hátt að í Reykjavík verður unninn karfi og ufsi en á Akranesi þorskur og ýsa. Gert er ráð fyrir að í Reykjavík verði árlega unnið úr um 20.000 tonnum af hráefni og á Akranesi úr um 10.000 tonnum. Bæði fiskiðjuverin munu leggja aukna áherslu á vinnslu ferskra afurða og keypt hefur verið ný sérhæfð vinnslulína fyrir ferskar afurðir sem sett verður upp á Akranesi í maímánuði. Öll frysting uppsjávarfisks og loðnuhrogna verður á Akranesi. Heildarfjöldi starfa HB Granda hf. verður um 600.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka