Ölgerðin Egill Skallagrímsson fékk gullverðlaun fyrir Egils Lite bjór í heimsmeistarakeppni bjórtegunda í Bandaríkjunum fyrir skemmstu.
Keppnin heitir World Beer Cup 2006 og hefur verið haldin af Sambandi bandarískra bjórframleiðenda frá 1996. Athygli vakti að Egils Lite skaut Foster’s ref fyrir rass í sínum flokki, en ástralski bjórrisinn fékk silfurverðlaunin.
109 manns frá 18 löndum fengu það hlutverk að dæma 2.221 bjórtegund frá 540 framleiðendum í 56 löndum. Guðmundur Mar Magnússon, bruggmeistari Ölgerðarinnar, hefur haft veg og vanda af þróun Egils Lite.