Væntingavísitala Gallup mældist 100,8 stig í júní síðastliðnum og hækkaði örlítið eða um 4,3 stig frá fyrra mánuði. Samt sem áður hefur dregið verulega úr væntingum neytenda frá síðasta vetri og viðhorfsbreytingin sést af því að þrjá síðastliðna mánuði hefur væntingavísitalan verið um 100 stig samanborið um 130 stig mánuðina á undan.
Í hálf fimm fréttum segir að þegar að vísitalan er í 100 stigum eru jafn margir neytendur jákvæðir og neikvæðir á aðstæður í efnahags- og atvinnumálum. Vísitalan stóð einnig í 100 í ársbyrjun 2003 þegar núverandi uppsveifla hófst og af væntingavísitölu Gallup að dæma er uppsveiflunni nú lokið er hófst fyrir þremur árum síðan, að því er segir í hálf fimm fréttum KB banka.