Lálands-sparisjóðurinn í Danmörku býður viðskiptavinum sínum að leggi þeir fram 6000 danskar krónur, jafnvirði 73 þúsund króna, láni sjóðurinn þeim 300 þúsund danskar krónur á móti í 2½ ár og féð verði síðan notað til stöðutöku í íslensku krónunni og veðjað á að gengi krónunnar muni hækka.
Á viðskiptavef Berlingske Tidende segir Preben Skytt, sölustjóri Sparekassen Lolland, að viðskiptavinurinn gæti tapað þeim 6 þúsund krónum sem hann leggur fram og einnig vöxtum sem hann greiðir af láninu. Hins vegar gæti viðskiptavinurinn hagnast vel ef gengi íslensku krónunnar hækkar.
Skytt segir, að þar á bæ telji menn víst að krónan muni hækka í ljósi þeirra yfirlýsinga, sem íslensk stjórnvöld hafi gefið að undanförnu.