Heildarafli íslenskra skipa var 87 þúsund tonn í september síðastliðnum. Það er tæplega 22 þúsundum tonnum meira magn af afla en í september í fyrra. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Fiskistofu. Munar þar mestu um aukinn afla á norsk-íslenskri síld í ár.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að það sem af er ári (janúar-september) nemur heildarafli íslenskra skipa 1.055 þús. tonnum en hann var 1.411 þús. tonn í fyrra. Það er ríflega 30% samdráttur á milli ára í tonnum talið.
Loðnuvertíðin í upphafi árs var mun styttri en áður og skýrir það stærstan hluta af samdrættinum. Á móti kemur að mun hærra hlutfall af loðnuaflanum í ár fór til manneldisvinnslu auk þess sem afurðaverð var hátt og hærra en í fyrra.
Almennt eru ytri skilyrði fyrir sjávarútvegsfyrirtækin hagstæðari nú en í fyrra, gengi krónunnar hefur lækkað frá fyrra ári og afurðaverð á erlendum mörkuðum er í sögulegu hámarki. Að teknu tilliti til þessa má búast við aukningu í aflaverðmæti á þessu ári samanborið við árið 2005.