Danska dagblaðið Ekstra Bladet mun á sunnudaginn birta, að því er virðist, afar neikvæða frétt um íslenskt viðskiptalíf og segir þar m.a. að peningar íslenskra fjárfesta hafi verið raktir til Rússlands, þaðan til Lúxemborgar og Karíbahafsins. Íslenskum athafnamönnum og fjárfestum er líkt við bófa og stjórnmálamenn sagðir eiga þátt í spilltu viðskiptalíkani.
,,Hefur þú átt viðskipti við Sterling, Merlin eða Magasín? Viltu vita hvert peningarnir þínir fóru? Eða hefurðu lesið Nyhedsavisen nýlega og furðað þig á því hvaðan allir þessir peningar koma? Kauptu þá Ekstra Bladet," segir í tilkynningu vegna greinarinnar sem borist hefur íslenskum banka og þaðan Fréttavef Morgunblaðsins. Í honum segir að blaðið hafi komist til botns í hinu íslenska ,,kraftaverki" og rakið peningaslóðina frá Rússlandi til Lúxemborgar, Karíbahafs, Íslands og svo Danmerkur. ,,Og það er ekki fögur sjón. Við munum sýna þér viðskiptalíkan með bófum, háttsettum stjórnmálamönnum og milljörðum króna," segir í tilkynningunni.
Blaðamennirnir sem skrifa um þetta hafa hlotið Cavlings-verðlaunin og er rússneskur fréttaritandi einnig sagður koma að máli. ,,Niðurstaðan er hinn villtasti tryllir, en bersýnilega sannur," segir Extra Bladet.