Jan Jensen, aðalritstjóri Ekstra Bladet í Danmörku, segir að í tilkynningu, sem blaðið sendi frá sér í gær um væntanlega umfjöllun um íslenska kaupsýslumenn, hafi ekki verið talað um að peningar hafi verið „hvítþvegnir" heldur hafi blaðamenn blaðsins fundið spor sem tengi Rússa, Íslendinga og Dani saman.
Tilkynning Ekstra Bladet vakti talsverða athygli í gær og var talið að hún hefði valdið því að gengi íslensku krónunnar lækkaði þegar markaðsaðilar seldu krónu og keyptu evru. Í tilkynningunni sagði að Ekstra Bladet hefði farið í saumana á hinu íslenska fjármálakraftaverki og fylgt peningunum frá Rússlandi til Lúxemborgar, Karíbahafsins, Íslands og Danmerkur. Og það sé ekki mjög falleg sjón. „Fylgist með á sunnudag - ef ykkur finnst blanda af bófum, háttsettum stjórnmálamönnum og milljörðum nægilega spennandi," segir síðan í tilkynningunni.
Reutersfréttastofan hafði í gærkvöldi eftir Árna Mathiesen, fjármálaráðherra, að hann þekki ekki til neins, sem gæti tengt íslenska kaupsýslumenn við peningaþvætti eða ólöglegt athæfi í Rússlandi.
Jan Jensen segir í Ekstra Bladet í dag, að ýmislegt bendi til að efnahagsumhverfið á Íslandi sé einkennilegt. Blaðið hafi aldrei talað um peningaþvætti heldur hafi farið í saumana á fjárfestingum íslenskra fyrirtækja í Danmörku og fjallað verði um það í greinaflokki, sem hefjist á sunnudag.