Tap deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, á fyrstu níu mánuðum þessa árs nam 62,2 milljónum Bandaríkjadollara. Það svarar til um 4,2 milljarða íslenskra króna. Á sama tímabili í fyrra var tap félagsins 41,6 milljónir dollara.
Tapið á þriðja fjórðungi þessa árs jókst einnig frá fyrra ári og nam 23,6 milljónum dollara samanborið við 11,4 milljónir árið áður. Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 8,6 milljónum dollara en 13,2 milljónum í fyrra.
Í lok septembermánaðar síðastliðins var handbært fé deCODE samtals 126,8 milljónir dollara, jafnvirði um 8,7 milljarða íslenskra króna, samanborið við 155,6 milljónir dollara um síðustu áramót.
Í tilkynningu frá deCODE segir að aukið tap megi einkum skýra með hærri kostnaði við lyfjarannsóknir og -þróun.