British Airways hefur þróað og hannað nýtt viðskiptafarrými, Club World, í þeim þotum félagsins sem sinna löngum flugleiðum. Er þetta fjárfesting upp á 13 milljarða króna en á næstu mánuðum verður rýmið sett í 57 Boeing 747 vélar og 43 vélar af gerðinni Boeing 777.
Sætin í farrýminu eru með meiri lúxusþægindi en áður, sætin fjórðungi breiðari og hægt að fella þau niður svo úr verði flatt rúm. Nýtt afþreyingarkerfi verður tekið í notkun sem býður upp á ríflega 100 kvikmyndir og sjónvarpsþætti, auk leikja og fræðsluefnis.
Meðal nýjunga í þjónustu Club World er að farþegar í vélum sem leggja af stað eftir hálfsjö á kvöldin fá afhenta snyrtitösku og náttföt, auk þess sem allir farþegar í vélunum fá inniskó. Ekki amaleg þægindi en ósennilegt að þau verði í boði hjá BA milli Íslands og Bretlands, enda flugið stutt.