Bandaríski hagfræðingurinn Milton Friedman lést í dag, 94 ára að aldri. Friedman, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1976, hafði mikil áhrif á efnahagsstefnu bæði Bandaríkjanna og Bretlands þegar Ronald Reagan var Bandaríkjaforseti og Margaret Thatcher var forsætisráðherra Breta.
Friedman kenndi hagfræði við Chicagoháskóla frá 1946 til 1976. Hann var síðan ráðgjafi Cato stofnunarinnar í Washington og starfaði einnig við Hoover-stofnunina við Stanford-háskóla í Kaliforníu.
Friedman kom hingað til lands árið 1984 í boði Hannesar H. Gissurarsonar, prófessors, og hitti m.a. íslenska ráðamenn og fræðimenn að máli.