Hagnaður Atorku Group nam 129 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins en hagnaður móðurfélagsins nam 5.427 milljónum króna. Hagnaður samstæðu nam 32 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi en móðurfélags 555 milljónum króna.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að í móðurfélagsreikningi eru allar fjárfestingar, þar með taldar fjárfestingar í dótturfélögum metnar á gangvirði (e. fair value). Breytingar á gangvirði á tímabilinu eru færðar í rekstrarreikning, þar með taldar gangvirðisbreytingar og arðstekjur frá dótturfélögum. Hins vegar er ekki tekið tillit til afkomu rekstrar hvers og eins dótturfélags á tímabilinu.
Í samstæðureikningi er beitt hlutdeildaraðferð og samstæðureikningsskilum þar sem rekstrarleg afkoma hvers og eins dótturfélags ásamt afkomu móðurfélags, án gangvirðismat á dótturfélögum, er lögð saman og myndar afkomu tímabilsins.
Magnús Jónsson, forstjóri Atorku, segir í tilkynningu: „Afkoman fyrstu níu mánuði ársins er góð. Fyrirtækjaverkefni félagsins ganga vel og eignasafnið býður uppá margvísleg tækifæri. Gangi kaupin á Polimoon eftir munu þau gera Promens að einu stærsta plastfyrirtæki í Evrópu með um 60 milljarða veltu og 6000 starfsmenn. Vinna við aukningu umsvifa Jarðborana erlendis gengur einnig ágætlega og þar liggja áhugaverð tækifæri til vaxtar.”
Tilkynning til Kauphallar Íslands