Nafni Sparisjóðabankans breytt í Icebank

Sparisjóðabanki Íslands hefur fengið nýtt nafn, Icebank, um leið og áherslum í starfsemi bankans hefur verið breytt. Fram kemur í tilkynningu, að Icebank verði framvegis öflugur banki á fyrirtækjamarkaði með áherslu á langtímalán og gjaldeyris- og afleiðuviðskipti við fyrirtæki, fagfjárfesta og aðra umsvifamikla viðskiptavini.

Bankinn muni áfram veita sparisjóðunum margvíslega þjónustu en leggja aukna áherslu á að fylgja eftir íslenskum félögum í útrás með ráðgjöf, lánveitingum og þátttöku í fjárfestingum samhliða því að taka þátt í sambankalánum og sérhæfðum lánaverkefnum innanlands og erlendis.

Nafnabreytingin var kynnt í dag en verður staðfest formlega á hluthafafundi 30. nóvember.

Á síðasta ári nam hagnaður bankans rúmum 2,4 milljörðum króna. Fyrstu sex mánuði þessa árs nam hagnaðurinn 1,8 milljörðum króna sem er mesti hagnaður bankans á einum árshelmingi. Gert er ráð fyrir mjög góðri afkomu á síðari hluta ársins þannig að heildarhagnaður ársins verði meiri en nokkru sinni fyrr. Eigið fé bankans í lok síðasta árs nam tæpum 5,7 milljörðum króna en var rúmir 3,2 milljarðar króna árið áður. Stefnt er að hröðum vexti bankans næstu árin en gerðar eru kröfur um 18% arðsemi eigin fjár á ári.

Hjá Icebank starfa um 100 manns. Bankinn er í eigu 24 sparisjóða en fjórir þeirra eiga meira en 10% hlut í bankanum – SPRON (24,5%), Sparisjóður Hafnarfjarðar (14,7%), Sparisjóður vélstjóra (14,0%) og Sparisjóðurinn í Keflavík (11,6%). Stefnt er að því að fá nýja hluthafa að bankanum samhliða auknum vexti hans og skrá hlutabréfin í Kauphöll Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK